Einmanaleiki - félagsleg einangrun
27. mars 2025
Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur fyrir vitundarvakningu um félagslega einangrun undir yfirskriftinni Tölum saman. Með því vill ráðuneytið vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun getur verið og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni.


Allir geta lent í því að einangrast félagslega
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.
Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.
Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt. Í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á Ísland.is. Þar má til dæmis finna ráðleggingar við spurningum á borð við:
Hefurðu nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
Hefurðu nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
Treystirðu mikið á samfélagsmiðla til að fylgjast með kunningjum eða heiminum í heild?
Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?
Í netspjalli og hjálparsíma Rauða krossins 1717 má síðan fá upplýsingar og ráðgjöf allan sólarhringinn.