Fundur norrænna skipulagsyfirvalda í Reykjavík
5. september 2025
Árlegur fundur norrænna skipulagsyfirvalda var haldinn á Íslandi dagana 27. til 29. ágúst síðastliðinn

Árlegur fundur norrænna skipulagsyfirvalda var haldinn á Íslandi dagana 27. til 29. ágúst síðastliðinn. Fundurinn hefur verið haldinn nær samfleytt frá árinu 1970, að árinu 2021 undanskildu, en þar hittast fulltrúar systurstofnana og ráðuneyta frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi.
Á fundunum kynnir hvert land ársskýrslur sínar, helstu áherslumál stjórnvalda og breytingar á regluverki og deila reynslu sinni af þróun skipulagsmála síðastliðið ár. Auk almenns yfirlits um stöðu og þróun málaflokksins er valið þema tekið til sérstakrar umræðu ár hvert. Í ár voru húsnæðismál, þétting byggðar og gæði borgarumhverfis til umræðu. Meðal gesta á fundinum var Ásdís Ólafsdóttir, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins sem sagði frá þróun uppbyggingar á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að fara yfir helstu tækifæri og áskoranir við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins. Í innleggi nágrannaþjóða okkar komu fram sambærilegar áskoranir og hér á landi um framboð, gæði og undirbúningstíma.
Sjónum var jafnframt beint að náttúruvá og reynslu Íslands af yfirstandandi atburðum í Grindavík. Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri hjá Veðurstofu Íslands fór yfir stöðu náttúruvár á Íslandi og vinnu við gerð hættumats tengt eldgosahrinu síðastliðinna ára á Reykjanesskaga. Þá fór Ögmundur Erlendsson jarðfræðingur hjá Ísor yfir áhrif jarðhræringanna á Grindavík og nágrenni og viðbrögð til varnar innviðum og samfélag.
Hluti starfsfólks Skipulagsstofnunar tók þátt í fundinum, sem þótti bæði áhugaverður og fræðandi. Ljóst er að víða er samhljómur í áherslum í skipulagsmálum á Norðurlöndum og að ýmsan lærdóm má draga af nálgun nágrannalandanna á þau viðfangsefni sem helst eru uppi á teningnum nú, t.a.m. þegar kemur að einföldun ferla við uppbyggingu íbúðahúsnæðis, gæðum í mannvirkjagerð, mikilvægi grænna svæða og styrkingu líffræðilegrar fjölbreytni í þéttbýli. Reglulegt samtal við nágrannaþjóðir okkar skiptir því máli og margt sem má læra af reynslu þeirra.

