Fara beint í efnið
Skipulagsstofnun Forsíða
Skipulagsstofnun Forsíða

Skipulagsstofnun

Landsskipulagsstefna 2015-2026 - samráðsvettvangur

2. febrúar 2014

Landsskipulagsstefna
2015-2026 - samráðsvettvangur

Skipulagsstofnun býður hér með þeim sem hafa áhuga á eða eiga hagsmuna að gæta að aka þátt í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu 2015 - 2026.

Skipulagsstofnun hefur í samræmi við reglugerð um landsskipulagsstefnu nr. 1001/2011 stofnað sérstakan samráðsvettvang vegna mótunar landsskipulagsstefnu. Stofnuninni er falið að gera tillögu að landsskipulagsstefnu sem fjalli um eftirtalda málaflokka:

  • Skipulag á miðhálendi Íslands

  • Búsetumynstur – dreifing byggðar

  • Skipulag á haf- og strandsvæðum

  • Skipulag landnotkunar í dreifbýli

Skipulagsstofnun býður hér með þeim sem hafa áhuga á eða eiga hagsmuna að gæta að taka þátt í samráðsvettvangi vegna mótunar landsskipulagsstefnu 2015 - 2026.

Tilkynningar um þátttöku á samráðsvettvangi sendist til Skipulagsstofnunar Laugavegi 166, 150 Reykjavík eða á netfangið landsskipulag@skipulagsstofnun.is fyrir 17. febrúar næstkomandi. Fram komi nafn og netfang þátttakenda.

Nánar um samráðsvettvang

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur falið Skipulagsstofnun að vinna tillögu að landsskipulagsstefnu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. bréf ráðuneytisins þar um. Málaflokkar sem fjallað var um í fyrstu tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu, sem lögð var fram á vorþingi 2013 en náði ekki afgreiðslu verða teknir fyrir að nýju. Það er skipulag á miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifing byggðar og skipulag á haf- og strandsvæðum. Auk þess verður fjallað um nýtt viðfangsefni, skipulag landnotkunar í dreifbýli. Í vinnu að nýrri tillögu að landsskipulagstefnu verður byggt á gögnum og sjónarmiðum sem fram komu við vinnslu fyrri tillögu, sem og uppfærðum forsendum.

Áætlað er að Skipulagsstofnun skili tillögu sinni til umhverfis- og auðlindaráðuneytis í desember 2014 og að tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu 2015-2026 verði lögð fram á vorþingi 2015.

Tillaga að landsskipulagsstefnu 2015-2026 verður mótuð í virku samráði við sveitarfélög og samtök þeirra, opinberar stofnanir og hagsmunasamtök, m.a. í gegnum samráðsvettvang og með formlegu auglýsingaferli. Skipulagsstofnun mun leggja fram hugmyndir til kynningar og umræðu og leita eftir ábendingum og tillögum. Fyrirhugað er að starf samráðsvettvangsins muni fara fram á fundum sem Skipulagsstofnun boðar til, sem og á netinu. Auk þessa mun sérstök ráðgjafarnefnd, skipuð fulltrúum ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga, verða Skipulagsstofnun til ráðgjafar um vinnslu tillögunnar.

Helstu tímasetningar í ferli landsskipulagsstefnu 2015-2026 eru samkvæmt áætlun:

  • Lýsing landsskipulagsstefnu kynnt opinberlega í febrúar 2014 og samhliða verður leitað eftir áherslum frá samráðsvettvangi.

  • Forsenduskýrsla landsskipulagsstefnu og samantekt á greiningu sviðsmynda ásamt umhverfismati kynnt í maí 2014.

  • Tillaga að landsskipulagsstefnu auglýst í október og nóvember 2014.

  • Tillaga til þingsályktunar lögð fram á Alþingi á vorþingi 2015.

Kostnaður vegna þátttöku í samráðsvettvanginum greiðist af þátttakendum. Nánari upplýsingar veitir Einar í síma 595 4100 eða í gegnum netfangið einar@skipulagsstofnun.is.

Skipulagsstofnun

Hafa samband

Sími 595 4100
skipulag@skipulag.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 16
Föstudaga: 9 til 13

Borg­ar­túni 7b

105 Reykjavík
Kennitala: 590269 - 5149

Samfé­lags­miðlar

Facebook
Instagram