Stjórnarhættir
Stjórnarháttayfirlýsing er gefin út af stjórn ár hvert. Þar má sjá helstu áherslur stjórnar í starfseminni og stutt yfirlit yfir helstu þætti starfseminnar. Núgildandi stjórnarháttayfirlýsingu má finna kaflaskipta hér að neðan.
Yfirlýsinging er staðfest af stjórn Náttúruhamfaratryggingar Íslands 30. janúar 2025
Stjórnarhættir
Tilgangur yfirlýsingarinnar er að tryggja gagnsæi í því hvernig Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) starfar í samræmi við góða stjórnarhætti. Stofnunin starfar skv. sérlögum nr. 55/1992 um NTÍ og reglugerð nr. 770/2023 um NTÍ með áorðnum breytingum. Starfsstöð NTÍ er að Hlíðasmára 14, Kópavogi.
NTÍ starfar á sviði skaðatrygginga samkvæmt lögum nr. 55/1992 og lögum um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016. Í samræmi við lög um endurskoðendur nr. 94/2019 eru vátryggingafélög skilgreind sem einingar tengdar almannahagsmunum og er sérstaklega kveðið á um hlutverk endurskoðunarnefnda í slíkum einingum í lögum um ársreikninga nr. 3/2006.
Starfsreglur stjórnar og stjórnarháttayfirlýsingin eru aðgengilegar á vef NTÍ. Við gerð stjórnarháttaryfirlýsingar þessarar var stuðst við nýjustu útgáfu leiðbeininga Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins sem tóku gildi 1. júlí 2021.
1) Markmið og hlutverk
Hlutverk stofnunarinnar er að vátryggja húseignir og lausafé sem brunatryggt er hjá almennu vátryggingafélögunum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um NTÍ. Vátryggingafjárhæðir skulu nema sömu fjárhæð og brunatryggingin á hverjum tíma. Stofnunin vátryggir einnig veitu- og hafnarmannviki í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga, sem og brýr og skíðalyftur, sbr. 2. mgr. 5. gr. sömu laga. Vátryggingafjárhæðir þeirra verðmæta miðast við endurstofnverð auk kostnaðar við niðurrif og förgun. Þegar mannvirki eru náttúruhamfaratryggð hjá NTÍ er átt við frumtryggingastarfsemi á sviði skaðatrygginga. Heimilt er að vátryggja mannvirkin annars staðar en hjá NTÍ.
2) Skipulag starfseminnar
NTÍ er opinber stofnun sem heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið. Fimm eru í stjórn og eru þrír kosnir af Alþingi, einn valinn af vátryggingafélögunum og formaður skipaður af ráðherra.
3) Áhættu- og öryggisstjórnun
NTÍ skal viðhafa virka áhættustjórnun til að greina og meta áhættu í starfsemininni. Gera skal öryggisráðstafanir til að tryggja öryggi starfsfólks, samfelldan rekstur og getu stofnunarinnar til að tryggja skjót og fumlaus viðbrögð við tjónum á vátryggðum eignum. Áhættustýringarstefna er endurskoðuð að lágmarki einu sinni á ári og áhættustýringarstefna er útgefin ár hvert.
4) Vátryggingarskylda og fjárhæðir
Stofnunin skal annast vátryggingar gegn náttúruhamförum á húseignum og lausafé sem brunatryggt er hjá almennu vátryggingafélögunum og skulu vátryggingafjárhæðir samsvara brunabótamati á hverjum tíma. Um vátryggingafjárhæðir annarra verðmæta sem stofnunin vátryggir skal miða við endurstofnverð á hverjum tíma.
5) Viðbúnaðar og viðbragðsáætlanir
NTÍ skal hafa áætlun til að bregðast við og tryggja samfelldan rekstur í kjölfar náttúruhamfara eða annarra áfalla, jafnt í afgreiðslu tjónamála og rekstri upplýsingakerfa. Leggja skal áherslu á góða þjónustu og skýrleika í samskiptum við viðskiptavini í samræmi við gildandi lög og reglur.
6) Þjálfun og fræðsla
Tryggja skal endurmenntun starfsmanna og þjálfun í samræmi við starfssvið þeirra og hlutverk stofnunarinnar, þannig að þeir séu í stakk búnir til að sinna hlutverki sínu. Meðvitund um áhættu- og öryggismál skal vera hluti af menningu stofnunarinnar.
7) Gagnsæi og ábyrgð
Leggja skal áherslu á gagnsæi og áreiðanleika. Birta skal ársreikninga og aðrar mikilvægar upplýsingar á opinni vefsíðu NTÍ.
NTÍ sendir fjármála- og efnahagsráðuneyti ársreikning um leið og hann liggur fyrir og ársskýrslu NTÍ í beinu framhaldi af ársfundi. Önnur samskipti eru í tengslum við lög og reglur sem um NTÍ gilda. Forstjóri leggur áherslu á að upplýsa ráðuneytið um öll mál sem geta talist mikilvæg og/eða þarf að hafa í huga varðandi starfsumhverfi NTÍ.
NTÍ hefur enga dóma hlotið fyrir refsiverðan verknað skv. almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um vátryggingafélög eða löggjöf um bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með vátryggingastarfsemi.
NTÍ lýtur eftirliti Seðlabanka Íslands og hefur komið á samhæfðri áhættustýringu sem nær til allra rekstrarþátta. Stefna byggir á COSO-leiðbeiningum. Stjórnkerfi og skipulag eru skráð í gæðakerfi, þar sem starfsmenn bera ábyrgð á gæðum, þjónustu og upplýsingaöryggi. Innra eftirlit er innbyggt í verklagsreglur og reglulegar innri úttektir og áhættugreiningar framkvæmdar.
Starfsmaður þjónustusviðs kynnir árlega stöðu gæða- og öryggismála, innri úttekta og úrbóta fyrir stjórn og endurskoðunarnefnd. NTÍ leggur áherslu á skýra verkaskiptingu og reglulega upplýsingagjöf: mánaðarlegar skýrslur um eignastýringarsafn, ítarlegar ársfjórðungslega og árlega, auk eigin áhættu- og gjaldþolsmats. Forstjóri og sérfræðingur í fjárfestingum funda reglulega með fjárstýringaraðilum til að meta stýringu og eftirlit með fjárfestingum.
Árleg skýrsla um áhættustýringu og aðrar úttektir tryggja gagnsæi, eftirlit með frávikum og viðbrögð við áhættuþáttum. Skuldbinding vegna tjóna og endurtryggingavernd eru metin reglulega. Samningur er við KPMG um innri endurskoðun fyrir tímabilið 2024–2027
Stjórn og starfsfólk NTÍ hafa sett sameiginlegar siðareglur sem þjóna sem vegvísir í starfi. Þær byggja á gildunum sanngirni, áreiðanleika, samvinnu og frumkvæði og voru síðast endurskoðaðar í október 2023.
Mannauðsstefna NTÍ, staðfest af stjórn í janúar 2025, byggir á fimm meginþáttum: vinnustaðamenningu, stjórnun og þróun, starfssambandi, starfsþróun og heilsu og líðan. Fylgni við stefnuna er metin reglulega af utanaðkomandi sérfræðingum með viðtölum við starfsmenn og stjórnendur.
Stjórn hefur jafnframt sett fram framtíðarsýn í stefnuskjölum sem eru hluti af gæðakerfi NTÍ, þar sem markmið og aðgerðir tryggja innleiðingu og eftirfylgni.
Starfsreglur stjórnar eru endurskoðaðar árlega og voru síðast staðfestar í janúar 2025. Þær fjalla um hæfi stjórnarmanna, verkaskiptingu, skyldur, hlutverk stjórnar og forstjóra, fyrirsvar, upplýsingagjöf, fundarsköp, fundargerðir og ákvörðunarvald. Auk stefnumótunar hefur stjórn eftirlit með því að starfsemi NTÍ sé í samræmi við lög og reglur, bókhaldi, ráðstöfun fjármuna og virkni áhættustýringar.
Áhættustýringarstefna, síðast staðfest í september 2025, er byggð á COSO 2017 og tekur til áhættumenningar, stefnumótunar, framkvæmdar, upplýsingagjafar og innra eftirlits. Þrír helstu áhættuþættir eru tjónamál, eignastýring og tryggingafræðileg áhætta.
Upplýsingaöryggisstefna var endurskoðuð í febrúar 2025 og byggir m.a. á kröfum EIOPA-Bos-20/600 um rekstur upplýsingakerfa. Sama mánuð staðfesti stjórn einnig endurskoðaða umhverfis- og loftslagsstefnu sem tryggir fylgni við Græn skref í ríkisrekstri og stuðlar að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
NTÍ hefur ekki sérstaka stefnu um samfélagslega ábyrgð en fylgir stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem var samþykkt í júní 2024) og leiðbeiningaskjali um sjálfbærniáherslur (LBN-0557). Stjórn hefur ekki sett sér fjölbreytileikastefnu en gengur út frá því að skipan stjórnar sé í samræmi við gildandi lög.
Stjórn heldur fundi með innri og ytri endurskoðendum og endurskoðunarnefnd um eftirlit og áhættustýringu. Að auki funda stjórn og nefnd a.m.k. einu sinni á ári án viðveru forstjóra. Sjálfsmat stjórnar fór síðast fram í desember 2024 og tók til funda, upplýsingagjafar, hlutverka, ábyrgðar, virkni stjórnarmanna og starfs stjórnarformanns og forstjóra. Niðurstaðan var að stjórn hefði uppfyllt skyldur sínar og náð tilætluðum árangri. Endurskoðunarnefnd skilar árlega skýrslu til stjórnar og leggur mat á eigin störf
Stjórnarháttayfirlýsingu NTÍ má finna undir "stjórn" í dálkinum hér vinstra megin.
Stjórn hefur sett persónuverndarstefnu sem birt er á heimasíðu NTÍ. Hún er hluti af áhættumati við alla samningagerð og kveður á um vinnslusamninga þar sem unnið er með persónuupplýsingar. Stefnan var síðast endurskoðuð og staðfest í febrúar 2024. Lögð er áhersla á öryggi persónuupplýsinga í upplýsingakerfum. PwC sinnir hlutverki persónuverndarfulltrúa fyrir hönd NTÍ.
Fjárfestingarstefna NTÍ er endurskoðuð árlega og reglur um fjárfestingarstarfsemi eftir þörfum, síðast í janúar 2025. Lögð er áhersla á eignadreifingu og áhættulitlar fjárfestingar þar sem öryggi vegur þyngra en ávöxtun.
Eignastýring er í höndum Arion banka, Íslenskra verðbréfa og Landsbankans. Analytica hefur eftirlit með eignastýrendum og tekur saman mánaðarleg yfirlit um stöðu og fylgni við fjárfestingarstefnu. Stjórn fær reglulegar skýrslur: mánaðarlega samantekt og ársfjórðungslega ítarlega greiningu á frammistöðu eignastýrenda.
Endurtryggingasamningar draga úr áhættu vegna stórra tjónsatburða. Aon hefur annast miðlun frá 2014 og samningar eru endurnýjaðir árlega í lok árs fyrir næsta almanaksár.
Stjórn NTÍ er skipuð fimm einstaklingum til fjögurra ára. Þrír eru kosnir af Alþingi, einn af SFF og fjármála- og efnahagsráðherra skipar formann. Núverandi stjórnarmenn eru: Sigurður Kári Kristjáns-
son, formaður, skipaður til 1. júlí 2027, Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, Ragnar Þorgeirsson og Steinar Harðarson sem eru skipuð til 5. júní 2027 og Íris Björk Hreinsdóttir sem er skipuð til 1. ágúst 2029.
Varamenn eru Páll Friðriksson, skipaður til 5. september 2029, Gunnar Már Gunnarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Sigríður Gísladóttir sem skipuð eru til 5. júní 2027 og Ingvar Haraldsson sem er skipaður til 1. ágúst 2029.
Stjórn telur ákvæðum leiðbeininga um óhæði (2.3.2) fullnægt; allir stjórnarmenn eru óháðir stofnuninni og forstjóra. Varamenn sitja árlega einn stjórnarfund sem áheyrnarfulltrúar til að viðhalda þekkingu á starfseminni.
Á tímabilinu frá ágúst til ágúst 2025 hélt stjórn 16 fundi. Formaður sat alla fundi. Varamenn voru boðaðir tvisvar vegna forfalla og einu sinni náðist ekki að boða varamann í tæka tíð. Einn stjórnar-maður vék af fimm fundum á þessu tímabili vegna tengsla sinna við Grindavíkurbæ. Að öðru leyti var stjórn fullmönnuð.
Umræða um tiltekin málefni fyrir sama tímabil, samanborið við árið 2024 er eftirfarandi:
Hlutfall fundartíma | |
|---|---|
Stýring eignasafns, fjármál | 26% / 25% |
Tryggingafræðileg áhætta, endurtryggingar | 22% / 20% |
Áhættustýring, eftirlitsþættir | 14% / 9% |
Stefnumótun, gæðamál | 18% / 11% |
Meðferð tjónamála | 11% / 29% |
Önnur mál | 8% / 6% |
Stjórnina skipa:
Sigurður Kári Kristjánsson (f. 1973), stjórnarformaður skipaður af ráðherra. Lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti. Sat á Alþingi 2003–2011, rekur nú LLG Lögmenn ehf. í félagi við fleiri lögmenn. Hefur setið í fjölmörgum stjórnum einkafyrirtækja og stofnana
Hallfríður Guðný Hólmgrímsdóttir (f. 1975), skipuð af Alþingi 2023. B.Sc. í viðskiptafræði frá Bifröst, sveinspróf í húsasmíði og í iðnmeistaranámi. Hefur setið í bæjarstjórn Grindavíkur frá 2018 og í öldungaráði bæjarins 2019–2022. Hún starfar hjá Einhamri Seafood í Grindavík.
Íris Björk Hreinsdóttir (f. 1980), skipuð af SFF 2025. Lögmaður, yfirlögfræðingur SFF og staðgengill framkvæmdastjóra. Hefur starfað m.a. hjá Arion banka, Fjármálaeftirlitinu og í lögmennsku. Setið í fjölda stjórna, nefnda, hérlendis og erlendis, situr í tilnefningarnefnd, auk þess að hafa verið formaður Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
Ragnar Þorgeirsson (f. 1966), skipaður af Alþingi 2015. BA í opinberri stjórnsýslu og MA í alþjóðaviðskiptum frá Álaborg. Hefur starfað sem sparisjóðsstjóri, útibússtjóri og framkvæmdastjóri PwC. Löggiltur fasteignasali, rekur Heimili fasteignasölu í félagi við fleiri fasteignasala, stundar smábátaútgerð og er í endurskoðunarnefnd.
Steinar Harðarson (f. 1944), skipaður af Alþingi 2019 (áður í stjórn 2011–2015 og var varamaður 2015–2019). Véltæknifræðingur og bifreiðasmiður. Starfaði hjá Vinnueftirliti ríkisins 1999–2014, m.a. sem svæðisstjóri með þátttöku í alþjóðlegu starfi. Nú sjálfstæður vinnuverndarráðgjafi og athafnastjóri hjá Siðmennt.
Varastjórn:
Páll Friðriksson (f. 1981), varamaður Sigurðar. BA/MA í lögfræði frá HÍ og próf í verðbréfa-viðskiptum. Hefur starfað hjá Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, m.a. sem forstöðumaður verðbréfamarkaðseftirlits og framkvæmdastjóri sviðs markaða og viðskiptahátta. Starfar nú sem lögfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Gunnar Már Gunnarsson (f. 1972), varamaður Hallfríðar. Hefur starfað hjá Sjóvá frá 2005 og áður hjá Landsbanka Íslands. Umboðsmaður Sjóvár í Grindavík síðustu 10 ár, fjármálastjóri Vélsmiðju Grindavíkur 2009–2018. Bæjarfulltrúi í Grindavík 2008–2010 og frá 2022.
Ingvar Haraldsson (f. 1991), varamaður Írisar. Greininga- og samskiptastjóri SFF frá 2023 og er staðgengill framkvæmdastjóra. Hefur starfað við greiningu og samskipti við stjórnvöld og erlend samtök, fulltrúi í greiðsluráði Seðlabankans. Fyrrum aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðsins og stundakennari í HR.
Silja Dögg Gunnarsdóttir (f. 1973), varamaður Ragnars. Viðskiptastjóri hjá Algalíf. MIB í alþjóðaviðskiptum frá Bifröst og BA í sagnfræði frá HÍ. Var alþingismaður Framsóknarflokksins 2013–2021 og starfaði áður hjá HS Orku. Fyrrv. stjórnarformaður RÚV og nú stjórnarmaður.
Sigríður Gísladóttir (f. 1981), varamaður Steinars. Hún er dýralæknir og starfaði við fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun og Bláum akri ehf. frá 2012–2023. Hefur setið í ýmsum stjórnum og er nú sérfræðingur hjá Kerecis á Ísafirði.
Starfsfólk:
• Hulda Ragnheiður Árnadóttir (f. 1971) hefur verið forstjóri NTÍ frá 2010. Hún er með meistaragráðu í bankastjórnun, fjármálum og alþjóðaviðskiptum (2008), B.Sc. í viðskiptafræði (2004), Diploma í opinberri stjórnsýslu (2001) og Diploma í stjórnarháttum frá Háskóla Íslands. Hefur starfað í innri endurskoðun, stjórnunarstörfum hjá sveitarfélögum og rekið saumastofu
• Fastir starfsmenn eru sex auk forstjóra; Jón Örvar Bjarnason, sviðsstjóri vátryggingasviðs, Jóhann Árni Helgason, sviðsstjóri þjónustusviðs, Jónína Pálsdóttir, bókari og þjónustufulltrúi, Jóhanna María Kristinsdóttir gæða- og þjónustufulltrúi, Vignir Jónsson sérfræðingur í fjárfestingum og tjónafulltrúi og Ágúst Orri Sigurðsson sérfræðingur á vátryggingasviði.
Endurskoðunarnefnd starfar eftir starfsreglum á grundvelli IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Í 108. gr. er kveðið á um skyldu eininga tengdum almannahagsmunum að starfrækja endurskoðunarnefnd. Endurskoðunarnefnd NTÍ er skipuð þremur nefndarmönnum sem kosnir eru af stjórn NTÍ.
Hlutverk nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, áhættustýringu og virkni innra eftirlits. Hún skal tryggja gæði ársreikninga og annarra fjárhagsupplýsinga stofnunarinnar og óhæði endurskoðenda þess.
Sigurður Þórðarson (f. 1941), fyrrverandi ríkisendurskoðandi og formaður endurskoðunarnefndar NTÍ frá 2011. Löggiltur endurskoðandi frá 1982, starfaði í Ríkisendurskoðun og var ríkisendurskoðandi 1992–2008. Hefur víðtæka reynslu úr stjórnum og endurskoðunarnefndum, m.a. Norræna fjárfestingarbankanum, Evrópuráðinu og EUROSAI.
Steinunn Guðjónsdóttir (f. 1963), tryggingastærðfræðingur og framkvæmdastjóri Sjóvá-Almennra líftrygginga hf. Hefur starfað hjá Sjóvá frá 1999 í m.a. áhættustýringu og trygginga- og tölfræðigreiningu, með ábyrgð á innleiðingu Solvency II, auk þess að hafa starfað fyrir lífeyrissjóði. Lauk prófi í stærðfræði 1988 og tryggingastærðfræði 1999.
Yfirlit um starfsreynslu og bakgrunn Ragnars Þorgeirssonar er að finna undir umfjöllun um stjórn NTÍ en hann tók sæti í endurskoðunarnefnd NTÍ árið 2015
Ágreiningi um hvort bótaskylt tjón hafi orðið eða um fjárhæð vátryggingarbóta má skjóta til sérskipaðrar úrskurðarnefndar.
Formaður úrskurðarnefndar er Helgi Birgisson, lögmaður hjá Forum lögmönnum, tilnefndur af Hæstarétti Íslands.
Aðrir nefndarmenn eru Sólveig Þorvaldsdóttir, byggingaverkfræðingur, tilnefnd af Háskóla Íslands, Guðrún Ólafsdóttir, jarðskjálftaverkfræðingur, skipuð af ráðherra og Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, skipaður af ráðherra. Skipunartími nefndarinnar er til þriggja ára frá 1. mars 2022 til 1. mars 2025.
Leiðbeiningar Viðskiptaráðs Íslands, Nasdaq Iceland hf. og Samtaka atvinnulífsins taka mið af lögum um hlutafélög og því eiga þau ekki beint við um starfsemi NTÍ. Engu að síður eru þær hafðar til hliðsjónar við gerð stjórnarháttayfirlýsingarinnar. Í leiðbeiningunum er mælst til þess að tiltaka öll frávik frá leiðbeiningunum og er það gert í eftirfarandi upptalningu.
Nr. Leiðbeiningar | Efni ákvæðis | Staða NTÍ | Útskýring, rökstuðningur |
|---|---|---|---|
Kafli 1 (1.1–1.7) | Hluthafar og hluthafafundur | Á ekki við | NTÍ er ekki hlutafélag heldur opinber stofnun skv. lögum nr. 55/1992. Því eru engir hluthafar né hluthafafundir. Ársfundur er haldinn til að upplýsa hagaðila. |
2.2 | Stærð og samsetning stjórna | Á ekki við | Stjórnarmenn NTÍ eru skipaðir af Alþingi og Samtökum fjármálafyrirtækja. Stjórn hefur ekki ákvörðunarvald um samsetningu stjórnar. |
2.3.3-2.3. | Varðar óhæði stjórnarmanna | Á ekki við | Liðirnir eiga ekki við um NTÍ þar sem NTÍ er ekki hlutafélag. Engu að síður er gætt vel að hagsmunaárekstrum. |
2.7 | Starfskjarastefna | Á ekki við | Á ekki við um NTÍ þar sem það er ekki hlutafélag. |
2.9 | Sjálfbærni, fjölbreytileiki og siðferði | Á ekki við | Finna má upplýsingar um sjálfbærniáherslur í ýmsum stefnuskjölum NTÍ í LBN-0557. Í samræmi við lið 2.2 hefur stjórn ekki sett sér stefnu um fjölbreytileika. |
2.10 | Samskipti við hluthafa | Á ekki við | Samskipti við hluthafa á ekki við þar sem NTÍ er að fullu í eigu íslenska ríkisins. |
5.1-5.2 | Stofnun og störf undirnefnda | Á ekki við | Engar undirnefndir stjórnar eru starfandi hjá NTÍ fyrir utan endurskoðunarnefnd sem er lögbundin og starfar samkvæmt þeim ákvæðum sem um hana gilda. |
5.1 | Birting upplýsinga um sjálfbærnimælikvarða | Ekki uppfyllt að fullu | NTÍ hefur hafið vinnu við að safna og birta lykilmælikvörðum. Stefnt er að fyrsta sjálfbærniskýrslu með með ársreikningi 2025 |
5.4 | Starfskjaranefnd | Á ekki við | Engin starfskjaranefnd starfar hjá NTÍ, enda er NTÍ ekki hlutafélag. |
6.3 | Vefsíða félagsins | Á ekki við | Island.is hefur mótað verklag um hæfilegar og viðeigandi upplýsingar á vefsíðum stofnana ríkisins sem NTÍ fylgir. |
Stjórnarháttayfirlýsing þessi hefur verið sett saman af stjórn og forstjóra NTÍ eftir bestu vitund. Henni er ætlað að veita greinargóðar upplýsingar um stjórnarhætti stofnunarinnar til viðskiptavina, eftirlitsaðila, eiganda og annarra hlutaðeigandi.
Gæðaskjal samþykkt á stjórnarfundi 30. september 2025