Vettvangsskoðun í Grindavík gengur vel
27. febrúar 2024
Undanfarnar tvær vikur hafa matsmenn á vegum NTÍ verið í tjónaskoðunum í Grindavík. Alls hafa borist 408 tilkynningar um tjón á húseignum og 53 tilkynningar um tjón á innbúum og lausafé. Matsmenn sem annast tjónamötin fyrir hönd NTÍ starfa hjá Verkís, Eflu, VSÓ og Cowi, sem hét áður Mannvit, auk þess sem þrír sjálfstætt starfandi matsmenn koma að matsstörfum. Af þessum 408 tjónstilkynningum eru 330 tilkynningar vegna íbúðaeigna og 78 vegna atvinnueigna.
Búið er að skoða yfir 90% af tilkynntum tjónum a.m.k. einu sinni. NTÍ gerir ráð fyrir því að tjón kunni að hafa aukist frá tjónaskoðunum sem fóru fram fyrir áramót. Mögulega munu matsmenn því að þurfa að fara oftar en einu sinni á hvern stað en ekki hefur verið talin ástæða til að fara aftur í öll hús sem skoðuð voru fyrir áramót. Þegar niðurstaða tjónamats verður kynnt fyrir eigendum geta þeir tilkynnt um viðbótartjón til NTÍ ef það á við og verður eignin þá skoðuð að nýju áður en ákvörðun verður tekin í málinu.
Meðan mikil óvissa ríkir um mögulegt eldgos í Grindavík hefur verið ákveðið að bíða með frekari skoðanir í Grindavík. Kvikusöfnun hefur verið stöðug undanfarið og vísindamenn meta það svo að eldgos geti hafist á hverri stundu þó erfitt sé að segja nákvæmlega til um tímasetningu á því.
Alls hafa 74 húseignir orðið fyrir altjóni
Í ljósi þessa er nú lögð áhersla á úrvinnslu tjónamata og mun vinna við gerð kostnaðarmata og matsgerðir taka nokkrar vikur. Mikill breytileiki er í umfangi tjóna, þar sem niðurstaða tjónamats er mjög mismunandi eftir því hversu nálægt húsin liggja sprungunum sem liggja í gegnum bæinn. Enn fjölgar þeim eignum sem matsmenn hafa staðfest altjón á, en 74 þeirra eigna sem skoðaðar hafa verið eru nú metnar sem altjón, en þær skiptast í 42 íbúðareignir og 32 atvinnueignir. Talsvert mörg tjón eru undir eigin áhættu eigenda og með óverulegu tjóni skv. fyrstu niðurstöðu matsmanna, en það eru þau almennt þau hús sem liggja fjær sprungunum sem þvera bæinn.