Fara beint í efnið
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Um tjónamál í Grindavík

23. febrúar 2024

NTÍ brýnir fyrir eigendum fasteigna í Grindavík að tilkynna um öll hugsanleg tjón af völdum náttúruhamfara til stofnunarinnar eða þess vátryggingarfélags sem seldi vátrygginguna. Þegar NTÍ hefur fengið vitneskju um tjón sem ætla má að náttúruhamfaratrygging taki til eru gerðar ráðstafanir svo fljótt sem unnt er, til að fá úr því skorið hvort bæta skuli tjónið og eftir atvikum láta meta það.

Grindavik tryggt

Frá upphafi tjónsatburðarins hafa borist 406 tilkynningar um tjón á húseignum í Grindavík. Þar af eru 328 íbúðaeignir og 78 atvinnueignir. Búið er að skoða tjón á 358 húseignum en 48 húseignir bíða skoðunar, þar á meðal 11 eignir sem bókuð hefur verið tjónaskoðun á n.k. mánudag. Samtals hefur verið metið altjón á 34 íbúðaeignum og 28 atvinnueignum. Áhersla hefur verið á uppgjör vegna þeirra altjónseigna sem fyrir liggur að endurbygging er ekki heimil á skv. ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar. Tjónabætur hafa verið gerðar upp vegna 39 altjónseigna að undanskildum kostnaði vegna niðurrifs og förgunar, sem verður gerður upp þegar því er lokið. Beðið hefur verið með afgreiðslu hlutatjóna sem skoðuð voru fyrir 14. janúar s.l. þar sem ekki hefur verið staðfest hvort tjón var að fullu komið fram þegar síðasta skoðun fór fram og ekki er hægt að ráðstafa tjónabótum til endurbóta miðað við núverandi stöðu í Grindavík, eins og lögin kveða á um.

Tilkynningar um innbús- og lausafjártjón eru 53 frá upphafi atburðar og er skoðun lokið á 15 innbús- og lausafjártjónum. Búið er að greiða tjónabætur í 8 þessara mála og 7 eru í vinnslu.

Upplýsingagjöf til NTÍ um lagfæringar

Ef ráðist er í framkvæmdir eða lagfæringar á eign áður en tjón hefur verið metið kann það að hafa áhrif á sönnun tjóns, þar með talið á umfangi þess. Ef talið er nauðsynlegt að hefja lagfæringar eða framkvæmdir tafarlaust, til að koma í veg fyrir frekara tjón á vátryggðri eign, mælist NTÍ til þess að slíkar ráðstafanir séu tilkynntar til NTÍ áður en þær fara fram svo unnt sé að tryggja viðeigandi sönnun á tjóni, eftir því sem frekast er unnt.

Ráðstöfun tjónabóta til viðgerða

Gert er ráð fyrir því að bætur vegna tjóns af völdum náttúruhamfara séu nýttar til endurbóta eða endurbyggingar á vátryggðum eignum, nema sérstakar undanþágur frá slíkri viðgerðar­skyldu eigi við. Almennt er gert ráð fyrir því að endurbætur fari fram á eign eftir að atburður og hættuástand hefur liðið hjá. Ekki er ráðlagt að ráðast í varanlegar viðgerðir á eign á meðan atburður stendur enn yfir, með tilheyrandi hættu á endurteknu tjóni. Í því sambandi verður að hafa hugfast að sama tjónið verður eingöngu bætt einu sinni.

Ábyrgð og áhætta vátryggingataka

Atburðir í Grindavík eru sérstakir að því leyti að þær jarðhræringar og eldgos í og við bæinn teljast, samkvæmt mati Veðurstofu Íslands, vera hluti af stærri atburði sem hófst í október 2023 og er þeim atburði enn ólokið. Samkvæmt gildandi hættumati er talin mikil hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum innan þéttbýlismarka í Grindavík auk þess sem töluverð hætta er talin vera á hraunflæði. Þá er talið að aðstæður geti breyst með litum fyrirvara innan bæjarmarka Grindavíkur, eins raungerst hefur á undanförnum vikum og mánuðum. NTÍ áréttar því að allar viðgerðir eða framkvæmdir á vátryggðum eignum á meðan hættuástand er viðvarandi, fara fram á ábyrgð og áhættu vátryggingartaka.

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur