Neyðarstig í gildi vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum
8. febrúar 2024
Samkvæmt tilkynningu frá almannavörnum hefur ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að færa almannavarnir á neyðarstig, sem er hæsta stig almannavarna, vegna rofs á afhendingu á heitu vatni á Suðurnesjum. Einnig er í gildi neyðarstig almannavarna vegna eldgoss á Reykjanesi.
Af þessum sökum áréttar Náttúruhamfaratrygging Íslands að stofnunin bætir eingöngu beint tjón af völdum náttúruhamfara sem stofnunin vátryggir gegn, þ.e. eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða, sbr. 4. gr. laga nr. 55/1992, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, sbr. einnig nánari skilgreiningu í 2. gr. reglugerðar nr. 770/2023. Tjón sem kann að verða vegna frostskemmda eða rafmagnsleysis eftir að hraun rennur yfir veitumannvirki flokkast ekki sem beint tjón í skilningi laga nr. 55/1992 og fæst ekki bætt hjá NTÍ.
Einnig verður að hafa í huga að óheimilt er að stofna nýja náttúruhamfaratryggingu eða breyta eldri tryggingu eigna á þeim stað eða svæði, sem er í hættu þegar vátryggingaratburður er hafinn eða er yfirvofandi, sbr. 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 770/2023, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands.
Rétt er að geta þess að að svo stöddu er ekkert sem bendir til þess að önnur svæði en Grindavík og nágrenni séu innan skilgreindra hættusvæða vegna yfirstandandi náttúruhamfara. Nánar tiltekið að þar séu eignir sem geti orðið fyrir beinu tjóni af völdum jarðskjálfta og eldgoss sem NTÍ vátryggir gegn. Reglan sem birtist í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 770/2023 um NTÍ, um að óheimilt sé að stofna nýja náttúruhamfaratryggingu eða breyta eldri tryggingu, á því bara við um Grindavík og næsta nágrenni. Af þessum sökum skal áréttað að ekki er tilefni til að beita 3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar á svæðum þar sem eingöngu er hætta á óbeinu tjóni, svo sem vegna vatns- eða rafmagnsleysis.