Fara beint í efnið
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða

Náttúruhamfaratrygging Íslands

Jarðsjárgreiningar og skoðanir

19. febrúar 2024

Það sem af er þessu ári hafa verið verulegar takmarkanir á aðgengi inn í Grindavík. Í síðustu viku komust matsmenn þó í nokkrar tjónaskoðanir, bæði á húseignum og á lausafé og nú er útlit fyrir að aðgengi að bænum muni aukast verulega frá og með morgundeginum. Þau sem tilkynnt hafa tjón en bíða enn eftir tjónaskoðun mega því eiga von á því að haft verði samband við þá á næstunni.

Forskoðun tjóna

Jarðsjárgreiningar og skoðanir

Búið er að fara með jarðsjá um allar götur, en það má búast við að langan tíma taki að ljúka skoðun á lóðum og opnum svæðum. NTÍ mun leggja áherslu á að nota tímann vel á meðan fullt aðgengi er að bænum, með það að markmiði að ná fyrstu skoðun í öllum húsum þar sem tjónstilkynningar hafa borist. Áhersla verður lögð á innanhússskoðanir þar sem ekki er talið óhætt að framkvæma utanhússskoðanir nema frá götum, þar sem jarðsjárskoðunum er ekki lokið í görðum húsa. Hringt verður í eigendur til að bóka skoðanir núna næstu daga.

Staðan á tjónamötum

Frá upphafi tjónsatburðarins hafa borist 456 tilkynningar um tjón á húseignum í Grindavík. Þar af eru 367 íbúðaeignir og 89 atvinnueignir. Búið er að skoða tjón á 266 húseignum en 139 bíða skoðunar. Áhersla hefur verið á uppgjör altjónseigna þar sem það liggur fyrir að endurbygging verður ekki heimil skv. ákvörðun bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar miðað við núverandi stöðu í Grindavík. Greitt hefur verið inn á altjónseignir í 37 tilvikum, en hlutatjón hafa beðið afgreiðslu þar sem ekki hefur verið hægt að staðfesta hvort tjón var að fullu komið fram þegar síðasta skoðun fór fram og ekki er hægt að ráðstafa tjónabótum til endurbóta miðað við núverandi stöðu í Grindavík, eins og lögin kveða á um.

Tilkynningar um innbús- og lausafjártjón eru 51 frá upphafi atburðar og er skoðun lokið á 15 innbús- og lausafjártjónum. Búið er að greiða tjónabætur í átta þessara mála og sjö eru í vinnslu.

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur