Greiðsla tjónabóta vegna tjóna í Grindavík
12. desember 2023
Nú fer fram samantekt á öllum tjónaskoðunum í Grindavík. Áhersla verður lögð á að finna úrlausnir sem tryggja sanngjarna málsmeðferð og jafnræði meðal íbúa. Um leið og hægt er, verða niðurstöður matsgerða kynntar fyrir eigendum sem munu fá tækifæri til að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar í þeirra málum, en ljóst er að það næst ekki fyrir áramót.
Greiðsla tjónabóta í Grindavík
Þegar tjónabætur verða greiddar út og endurbygging ekki heimil getur eigandi ráðstafað þeim fjármunum að vild án nokkurra kvaða um að búa áfram í Grindavík
Ljóst er að niðurstaða úr tjónamati mun ekki verða kynnt fyrir áramót.
15% frádrætti af tjónabótum er ekki beitt þegar endurbygging er ekki heimil af skipulagsástæðum eða öðrum ástæðum sem tjónþoli ræður ekki.
Samkvæmt gildandi lögum um Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) eru allir brunatryggðir munir, (húseignir og lausafé) náttúruhamfaratryggðir fyrir sömu fjárhæð og brunatrygging nemur á hverjum tíma. Í þessu felst að vátryggingarfjárhæð húseigna er miðuð við brunabótamat. Brunabótamat húseigna skiptist þannig að 88% af brunabótamatinu er reiknað endurstofnverð hússins (kostnaður við að byggja sambærilegt hús) en 12% af brunabótamatinu er sá kostnaður sem reiknað er með að fari til að rífa húsið, farga byggingarefnum og lagfæra lóð til fyrra horfs.
Meginreglan er sú að tjónþoli skuli nota vátryggingarbætur sem hann fær greiddar frá NTÍ til þess að gera við eða endurbyggja húseign sem hefur orðið fyrir tjóni. Í þeim tilvikum sem tjón hefur áhrif á öryggi eða hollustuhætti húseignar, er það skylda NTÍ að tryggja að vátryggingarbótum sé varið til viðgerða.
Ef tjónabætur verða greiddar út vegna þess að endurbygging verður ekki heimil, teljast það aðstæður sem eigandi ræður ekki við og því getur hann ráðstafað þeim fjármunum að vild án nokkurra skilyrða. Tjónabætur miðast þá við endurstofnverð hússins, sem er sú fjárhæð sem talin er þurfa til að byggja sambærilegt hús að frádreginni 2% eigin áhættu. Ekki er um frekari frádrátt frá tjónabótum að ræða.
Rétt er að geta þess, að fram kemur í lögum um NTÍ, að hafi ákvörðun verið tekin um að veita undanþágu frá byggingarskyldu og telji NTÍ vátryggingarfjárhæð greinilega hærri en markaðsverð húseignar er stofnuninni heimilt að miða við markaðsverð viðkomandi húseignar. Tjónabætur sem samsvara metnu markaðsvirði hússins greiðast þá til eiganda að frádreginni 2% eigin áhættu og NTÍ greiðir þá sveitarfélaginu eða öðrum beint fyrir niðurrif og förgun hússins.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er þegar hafin vinna á vegum Grindavíkurbæjar við að meta hvaða hús verður leyft að endurbyggja og hver ekki og framhald hvers tjónamáls byggir á þeim ákvörðunum sem teknar verða í framhaldi af því. NTÍ mun ekki geta greitt út bætur til eigenda húseigna/tjónþola fyrr en að þeirri vinnu lokinni og þegar afstaða sveitarfélagsins til endurbyggingar á svæðinu liggur fyrir.