Fara beint í efnið

Ferill tjónamats á húseign vegna náttúruhamfara

19. mars 2024

Þegar NTÍ hefur borist tilkynning um tjón á húseign er send matsbeiðni til matsmanns og óskar eftir því að unnið verði tjónamat á eigninni í samræmi við lög nr. 55/1992 og reglugerð nr. 770/2023 um NTÍ.

Eldgos í febrúar

Samningar eru í gildi á milli NTÍ og fjögurra verkfræðistofa um tjónamat þar sem gerðar eru kröfur um menntun á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar s.s. byggingarverkfræði, byggingatæknifræði og byggingarfræði. Einnig setur NTÍ skilyrði um reynslu af matsstörfum og ritun matsgerða og er hvert tjónamat unnið af tveimur matsmönnum. Í kjölfar náttúruhamfaranna í Grindavík gerði NTÍ sérstaka kröfu um að a.m.k annar matsmanna í hverju máli hefði sérþekkingu á burðarþoli.

Framkvæmd tjónaskoðunar

Í tjónaskoðun skoða matsmenn þær skemmdir sem eigandi eða fulltrúi hans bendir matsmönnum á. Almennt er miðað við að fyrsta tjónaskoðun taki um 45 mínútur en ef tilefni er til frekari skoðunar á eign að mati matsmanna eru fleiri tjónaskoðanir boðaðar eftir þörfum. Í flestum tilvikum er um að ræða sjónskoðun á skemmdum ásamt því að eign er hæðarmæld til að kanna hvort til staðar sé sig eða hvort halli sé á eigninni.

Eftir tjónaskoðun skrifa matsmenn matsgerð þar sem fram kemur lýsing á þeim skemmdum sem voru skoðaðar og gerð er kostnaðaráætlun vegna viðgerða. Í 11. grein reglugerðar um NTÍ er fjallað um ákvörðun bóta og þar kemur fram með hvaða hætti ber að meta tjónið.

Ef hlutatjón verður á húseign, þ.e. ef ekki er um altjón að ræða, skal meta hvað kostar að gera við hið skemmda þannig að það verði eins, eða því sem næst eins og það var fyrir tjónsatburðinn. Minniháttar skemmdir, sem ekki rýra notagildi eða verðmæti eignar teljast ekki bótaskylt tjón. Dæmi um slíkar skemmdir eru fíngerðar sprungur í kverkum sem aðeins þarfnast minniháttar málningarviðgerða og eru almennt algengar í húseignum um allt land, óháð náttúruhamförum.

Í kjölfar tjónaskoðunar

Þegar matsmenn hafa lokið við matgerð, er hún kynnt. Í kynningarbréfi sem eigendur fá sent samhliða matsgerð veitir NTÍ frest til að koma á framfæri athugasemdum við matið. Slíkar athugasemdir, líkt og aðrar athugasemdir til stofnunarinnar, skulu helst berast með tölvupósti. Það bæði eykur skilvirkni og bætir skráningu þeirra.

Vegna ástandsins í Grindavík áréttar NTÍ að ef tjón á húseignum hefur aukist frá því eignin var skoðuð af matsmönnum eða tjón sé á eigninni vegna atburðarins, sem ekki er fjallað um matsgerð, sé hægt að tilkynna það til NTÍ. Stofnunin mun í slíkum tilvikum óska eftir því við matsmenn að þeir fari yfir innsendar athugasemdir og eftir atvikum skoði eignina aftur og uppfæri matsgerð.

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur