Fara beint í efnið
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða
Náttúruhamfaratrygging Íslands Forsíða

Náttúruhamfaratrygging Íslands

371 tjón hafa verið tilkynnt í Grindavík

22. desember 2023

Borist hafa samtals 371 tilkynning um tjón í Grindavík, þar af hafa 44 tilkynningar borist á síðustu sjö dögum. Búið er að skoða 257 tjón á húseignum en eftir standa 106 mál sem skoðuð verða á nýju ári. Flest tilkynnt tjón snúa að húseignum en tilkynningar vegna innbústjóna eru 34.

Loftmynd Grindavík

Þann 20. desember lágu fyrir fyrstu niðurstöður úr tjónaskoðunum sem framkvæmdar hafa verið á síðustu vikum. Sama dag var haft samband við eigendur 15 íbúðarhúsa sem eru talin óviðgerðarhæf. Í nokkrum tilvikum er um að ræða þá óvenjulegu stöðu að íbúðarhús eru talin hafa orðið fyrir altjóni en bílskúrar sem standa við húsin eru minna skemmdir og teljast því viðgerðarhæfir. Ekki hefur verið leitt til lykta hvernig farið verður með þau mál þar sem stakir matshlutar á lóð, s.s. geymslur eða bílskúrar, teljast viðgerðarhæfir en íbúðarhúsin ekki.

NTÍ vinnur nú að greiningu á tjónaupplýsingum varðandi þær eignir sem ekki hafa orðið fyrir altjóni en ljóst er að eru verulega skemmdar. Úrvinnsla þeirra tjónamála sem snúa að mest skemmdu íbúðarhúsunum og atvinnuhúsnæði þar sem miklir hagsmunir eru undir, eru í algjörum forgangi en frumniðurstöður munu þó ekki liggja fyrir fyrr en í janúar.

Það er ljóst að tjónamat í Grindavík og úrvinnsla úr þeim upplýsingum sem þar hefur verið aflað er umfangsmikið og flókið verkefni, en eins og áður segir leggur stofnunin áherslu á að flýta afgreiðslu mála eins og mögulegt er, sérstaklega hvað varðar húseignir sem orðið hafa fyrir miklu tjóni.   

Hafðu samband

Sími: 575 3300

Netfang: nti@nti.is

Opnunartími

Mánudaga - fimmtudaga:
9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Heimilisfang

Hlíðarsmári 14

201 Kópavogur