Prófessorsfyrirlestur - Sigurdís Haraldsdóttir
13. nóvember 2025
15:00 til 16:00
Læknagarður Stofa 201, 2 hæð

Fimmtudaginn 13. nóvember kl. 15:00 - 16:00 flytur Sigurdís Haraldsdóttir sinn prófessorsfyrirlestur, Sniðlækningar og forvarnir – byltingar í krabbameinslækningum síðastliðin 20 ár, í stofu 201, 2. hæð, Læknagarði.
Sigurdís Haraldsdóttir fæddist þann 1. desember 1979 í Reykjavík, hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð árið 1998 og kandidatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2004. Sigurdís hlaut meistaragráðu í heilbrigðisvísindum frá Háskóla Íslands árið 2008 og var í lyflæknaprógrammi við Landspítala 2005-2008 en hélt svo utan. Hún stundaði sérnám í lyflæknisfræði við Boston University 2008-2011 og sérnám í krabbameinslækningum við Ohio State University 2011-2015. Hún starfaði sem krabbameinslæknir og lektor við Stanford University 2015-2019 og flutti svo til Boston og starfaði sem krabbameinslæknir við Dana-Farber Cancer Institute og var lektor við Harvard University 2019-2021. Árið 2021 tók hún við sem krabbameinslæknir, yfirlæknir og forstöðumaður fræðasviðs krabbameinslækninga við Landspítala og var skipuð dósent við Háskóla Íslands.
Árið 2013 hóf Sigurdís doktorsnám við Háskóla Íslands sem hún lauk árið 2017. Rannsóknir hennar snéru að því að lýsa algengi Lynch heilkennis í íslensku þjóðinni en því hafði ekki verið lýst áður hér á landi.
Sigurdís hlaut framgang í starf prófessors við Læknadeild Háskóla Íslands sumarið 2025 og snúa rannsóknir hennar meðal annars að Lynch heilkenni, og ristilkrabbameinum og undirgerðum þeirra, sér í lagi ristilkrabbamein með vöntun á mispörunarpróteinum. Hún rannsakar einnig arfgerðir í DPYD geni sem geta valdið alvarlegum aukaverkunum á krabbameinsmeðferð, og stýrir hááhættueftirliti hjá einstaklingum í aukinni áhættu á briskrabbameini. Auk þess rannsakar hún erfðir og meðferðarheldni hjá sjúklingum með brjóstakrabbamein og rannsakar notkun snjallforrits til að bæta lífsgæði á meðferð í samstarfi við Sidekick Health. Á rannsóknarferli sínum hefur Sigurdís leiðbeint fjölda nema og hlotið fjölda styrkja. Hún hefur birt um 45 ritrýndar vísindagreinar, meðal annars í tímaritunum Gastroenterology, Journal of Clinical Oncology og Genetics in Medicine.
Eiginkona hennar heitir Roza Sarvarova og þær eiga börnin Harald Mána og Elínu Sól.
