Sérnám í ofnæmis- og ónæmislækningum
Efnisyfirlit
Kynning og marklýsing
Námstími: 3 ár, þar af eitt erlendis.
Marklýsing
Sérnámið er byggt á íslenskri marklýsingu sem er byggð upp á grunni marklýsingar UEMS og vottað af mats- og hæfisnefnd Heilbrigðisráðuneytisins í samræmi við reglugerð 856/2023
Um námið
Ofnæmis- og ónæmisfræði er ein yngsta sérgrein læknisfræðinnar og hefur hún vaxið umtalsvert á síðustu áratugum. Sérgreinin felur í sér mat og skilning á ónæmiskerfi líkamans og hvernig nýta megi þá þekkingu til rannsókna, greiningar og meðhöndlunar heilsufarsvandamála og sjúkdóma. Ofvirkni sem og vanvirkni í ónæmiskerfinu geta leitt til fjölbreytilegra vandamála og meðhöndlun með ónæmisvirkum meðferðum (immunomodulatory therapy) er nú beitt í fjölmörgum sjúkdómum. Ónæmisvirkum meðferðum hefur fjölgað mjög síðustu ár og því fylgja einnig afleidd vandamál tengd ónæmiskerfinu.
Lágmarkstími námsins verða 3 ár en námi verður lokið þegar hæfni er náð skv. Gullbók og ákvæðum reglugerðar. Þeir sérfræðingar sem nú eru starfandi á LSH hafa flestir hlotið sérmenntun sína í Bandaríkjunum, Hollandi, Noregi eða Svíþjóð. Þannig hefur myndast hópur sérmenntaðs fólks innan fagsviðsins með bakgrunn frá mörgum af bestu háskólastofnunum þessara landa.
