Vinnusparnaður og auknir rannsóknarmöguleikar með A-ONE hugbúnaðinum
10. nóvember 2025
Í lok ágúst birtist í tímaritinu Brain Sciences grein þar sem einn aðalhöfundanna er Guðrún Árnadóttir, doktor í iðjuþjálfafræðum sem hefur starfað um árabil sem sérfræðingur í iðjuþjálfun á Grensásdeild Landspítala auk þess að hafa umsjón með þróunar- og rannsóknarvinnu iðjuþjálfa.

Guðrún Árnadóttir, doktor í iðjuþjálfafræðum.
Greinin, ADL-Focused Occupation-Based Neurobehavioral Evaluation Software: Addition of a Rasch-Based Stroke Subscale to Measure Outcomes, byggir á gögnum sem eru fengin með A-ONE matstækinu sem Guðrún þróaði í tengslum við meistararitgerð sína við Suður-Kaliforníu háskóla á níunda áratug síðustu aldar. Ritgerðin var gefin út í bók og í kjölfarið þróaðist A-ONE í að verða matstæki sem hefur verið þýtt á sex tungumál og notað af iðjuþjálfum í yfir tuttugu löndum. A-ONE nýtist við að meta færni einstaklinga með taugaeinkenni við framkvæmd athafna daglegs lífs (ADL) og áhrif taugaeinkenna á færnina. A-ONE mun vera fyrsta matstækið sem er þróað til að meta samtímis framkvæmd iðju og einkenni sem draga úr framkvæmdafærni.
Einblínt á þróun heilablóðfallsmælikvarða A-ONE
Greinin í Brain Sciences segir frá fjórum rannsóknum sem Guðrún og meðhöfundar hennar framkvæmdu og tengjast þróun hugbúnaðar sem breytir lýsandi raðkvarða stigum heilablóðfallskvarða A-ONE, sem er einn af nokkrum undirkvörðum A-ONE, í jafnbila mælieiningar. Þá var athugað hvað felst í íhlutun iðjuþjálfa fyrir heilablóðfallssjúklinga og hvort hún teljist iðjumiðuð. Til að sýna fram á notkunarmöguleika hugbúnaðarins voru síðan skoðuð gögn sem iðjuþjálfar Grensásdeildar höfðu skráð árið 2024 með A-ONE hugbúnaðinum fyrir og eftir íhlutun, til að athuga hvort hugbúnaðurinn gæti numið tölfræðilega marktækar breytingar.
Að sögn Guðrúnar er í greininni fjallað um A-ONE matsferlið og óvenjulega notkun svokallaðrar Rasch greiningar með tveimur líkönum við uppbyggingu mælikvarða. „Töluverður vinnusparnaður leiðir af notkun A-ONE forritsins fyrir klíníska iðjuþjálfa og því fylgja auknir rannsóknarmöguleikar. Upplýsingar um eðli íhlutunar iðjuþjálfa eru einnig nákvæmari í greininni en tíðkast hefur,“ segir Guðrún.
Snýst um að ná til þeirra sem geta nýtt sér efnið
Guðrún hefur áður fengið fjölmargar greinar birtar í ritrýndum tímaritum og er hógvær þegar hún er spurð hvort það sé ekki mikill heiður að fá grein birta í Brain Sciences. „Að mínu mati snýst þetta ekki um heiður heldur um það hvort sú vinna sem verið er að vinna skili sér til þeirra sem á henni þurfa að halda eða geta notfært sér hana.“
