Stafræn heilbrigðislausn fyrir hjartabilaða lofar góðu í nýrri íslenskri rannsókn
9. september 2025
Ný vísindarannsókn, sem var unnin af heilbrigðistæknifyrirtækinu Sidekick Health og hjartadeild Landspítala á sjúklingum með hjartabilun, sýndi að sjúklingar voru mjög jákvæðir gagnvart fjarvöktun og lífsstílshvetjandi smáforriti sem var prófað á göngudeild hjartabilunar á Landspítala.
Rannsóknin, Effects of a digital health intervention on outpatients with heart failure: a randomized controlled trial, sem birtist í European Heart Journal – Digital Health, sýndi jafnframt að notkun smáforritsins leiddi til aukinnar sjálfsumönnunar, betri þekkingar á sjúkdómnum og bætingar á lykilefnaskiptaþáttum miðað við samanburðarhóp. Þá bætti notkun smáforritsins lífsgæði þeirra sem voru hvað veikastir af hjartabilun.
Hjartabilun er vaxandi heilsufarsvandamál sem tengist tíðum sjúkrahúsinnlögnum og hárri dánartíðni. Á hjartadeild Landspítala er rekin sérstök göngudeild fyrir hjartabilaða. Meðferðin er fjölþætt en þétt eftirlit og heilsueflandi lífsstíll hafa sýnt sig að fækka innlögnum á sjúkrahús og draga úr einkennum. Mikill áhugi hefur verið á að þróa tæknilausnir sem geta stutt við sjúklinga með hjartabilun, meðal annars með svokallaðri fjarvöktun, þar sem fylgst er með einkennum og líðan sjúklinga í gegnum stafrænar heilbrigðislausnir. Stafræn lausn Sidekick Health tekur einnig til lífsstílshvetjandi þátta, sjálfsumönnunar og fræðslu um sjúkdóminn. Bætt sjálfsumönnun hefur öðlast vaxandi mikilvægi í meðferð langvinnra sjúkdóma eins og hjartabilunar. Sjálfsumönnun tekur meðal annars til lyfjaheldni, mataræðis, sjálfsmeðferðar á versnandi einkennum og þess að leita snemma eftir heilbrigðisþjónustu þegar það dugar ekki.
Davíð O. Arnar, yfirlæknir á hjartadeild Landspítala stýrði rannsókninni. Hann segir að það hafi komið skemmtilega á óvart hversu margir þátttakendur hafi verið jákvæðir gagnvart fjarvöktunarþættinum og sömuleiðis verið virkir í lífsstílshvetjandi hluta smáforritsins. ,,Um 93% voru virkir í fjarvöktunarþættinum og rétt yfir 80% voru virkir í lífsstílshvetjandi hlutanum yfir 12 mánaða tímabil“. Þá segir Davíð að það sé greinilegt að þessi nálgun bæti ýmsa klíníska þætti hjá einstaklingum með hjartabilun og sé líklega góð viðbót við flókna lyfjameðferð og valin inngrip, þar á meðal tvísleglagangráð þegar það á við. Að mati Davíðs þá gefur þetta mjög góð fyrirheit um að þessi nálgun geti verið gagnleg hjá sjúklingum með erfiða langvinna sjúkdóma eins og hjartabilun. Nær allir eigi orðið snjallsíma og hafi öðlast góða færni í notkun hans. Þessi aðferð sé því afar fýsileg við að ná til sjúklinga og geti aukið verulega við klínískt eftirlit.
Sæmundur Jón Oddsson, sérfræðilæknir og framkvæmdastjóri lækninga og rannsókna hjá Sidekick Health, segir niðurstöðurnar staðfesta mikilvægi tæknilausna í meðferð langvinnra sjúkdóma. „Það er gífurlega hvetjandi fyrir teymið hjá Sidekick að sjá þann árangur sem næst þegar stafrænar lausnir styðja við sjúklinga með flókna og langvinna sjúkdóma eins og hjartabilun. Við erum stolt af traustu og árangursríku samstarfi við hjartadeild Landspítala og þessi rannsókn er til vitnis um öfluga aðferðafræði sem skilar raunverulegum, mælanlegum ávinningi. Niðurstöðurnar falla afar vel að vegferð okkar hjá Sidekick, þar sem markmiðið er skýrt: að nýta stafræna tækni til að bæta horfur og lífsgæði sjúklinga og gera heilbrigðisþjónustuna persónusniðna, samfellda og aðgengilega.“
Þetta verkefni er gott dæmi um vel heppnað og farsælt samstarf opinberar stofnunar og einkafyrirtækis. Mikill áhugi er hjá hjartadeild Landspítala og Sidekick Health að halda samstarfinu áfram og huga að tilraunainnleiðingu á þessari tækni fyrir hjartabilaða á komandi mánuðum.
