Reynir Tómas heiðraður fyrir framlag til þróunar sérnáms
29. september 2025
Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi forstöðulæknir á kvennadeild Landspítala og prófessor emeritus í fæðingahjálp og kvensjúkdómum, var heiðraður fyrir framlag sitt til þróunar sérnáms á Íslandi á málþingi sérnáms sem haldið var 18. september sl.
Reynir Tómas gegndi stöðu fyrsta formanns Mats- og hæfisnefndar og hefur komið að þróun á þeirri umgjörð sérnáms sem til er í dag sem þróuð hefur verið í samræmi við alþjóðleg viðmið. Mats- og hæfisnefnd hefur það hlutverk að vera ytri úttektaraðili sérnáms á Íslandi og veitir leyfi fyrir starfsstöð að mennta sérfræðilækna í læknisfræði.
„Það er okkur mikill heiður að geta veitt Reyni Tómasi þessa viðurkenningu,“ segir Margrét Dís Óskarsdóttir, yfirlæknir sérnáms. „Reynir Tómas hefur í áratugi verið brautryðjandi á sínu sviði og hefur lagt ómetanlegt af mörkum til þróunar sérnáms á Íslandi. Hans framlag til menntunar lækna og þróunar á starfsvenjum hefur haft varanleg áhrif á heilbrigðisþjónustuna á Íslandi.“
Reynir Tómas flutti heiðurserindi á málþingi sérnáms af þessu tilefni og fjallaði þar um sögu og yfirferð á uppbyggingu sérnáms á Íslandi á undanförnum árum og kom inn á rökstuðning í sögulegu samhengi fyrir þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað. Þá sagði hann einnig frá framtíð sérnáms frá sínu sjónarhorni.
