Ráðning forstöðulækna innan bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu
4. nóvember 2025
Í september sl. var auglýst laust til umsóknar starf forstöðulæknis innan bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala.

Í starfinu felst ábyrgð á uppbyggingu, skipulagi og þróun innan sérgreina bráðalækninga og utanspítalaþjónustu, endurhæfingarlækninga, gigtlækninga, húð- og kynsjúkdómalækninga, innkirtlalækninga, lungna- og svefnlækninga, almennra lyflækninga, meltingarlækninga, nýrnalækninga, taugalækninga, smitsjúkdómalækninga og öldrunarlækninga auk transþjónustu. Sviðið er stærsta svið Landspítala og beinist starfið að forystu um þjónustu við sjúklinga og þróun lækninga ásamt samhæfingu við aðra starfsemi spítalans í samræmi við stefnu og starfsáætlun Landspítala.
Á komandi árum verða miklar breytingar í starfsemi spítalans, fyrst með tilkomu nýbyggingar við Grensás og í framhaldinu með flutningi í nýjan meðferðarkjarna við Hringbraut. Þessar breytingar munu hafa gríðarleg áhrif á starfsemi innan bráða-, lyflækninga og endurhæfingarþjónustu spítalans og umbylta stórum hluta þjónustu sviðsins. Er í því samhengi brýnt að haga undirbúningi á skilvirkan og samræmdan hátt þannig að skipulag þjónustunnar verði með fullnægjandi hætti. Í þessu samhengi er lögð rík áhersla á gagnamiðaða nálgun við ákvarðanatöku og samræmingu og samþættingu verklags þvert á einingar spítalans. Enn fremur er aukin áhersla lögð á forystu um uppbyggingu öryggismenningar, gæða- og umbótastarfs og annarra verkefna sem snúa að skilvirkni í þjónustu við sjúklinga.
Í ljósi umfangs þeirra verkefna sem heyra munu undir starf forstöðulæknis bráða-, lyf- og endurhæfingarþjónustu hefur verið tekin ákvörðun um að ráða þá tvo einstaklinga sem sóttu um starfið tímabundið til eins árs í tvö stöðugildi forstöðulæknis. Hvor forstöðulæknir mun gegna 75% starfi auk 25% klínísks starfs.
Hefur framkvæmdastjóri bráða-, lyflækninga- og endurhæfingar þjónustu í samráði við forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga ákveðið að ráða Helga Kristinn Sigmundsson, núverandi yfirlækni meltingalækninga, og Sigríði Þórdísi Valtýsdóttur, núverandi yfirlækni almennra lyflækninga, í störf forstöðulækna bráða-, lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu.
Helgi Kristinn Sigmundsson lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1993, sérfræðinámi í lyflækningum frá University of Iowa árið 2001 og sérfræðinámi í meltingarlækningum frá Case Western Reserve University árið 2004. Helgi Kristinn var yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða frá árinu 2004 til ársins 2013, meltingarlæknir á HIMG/St. Mary‘s Hospital and Clinics frá árinu 2013 til ársins 2023 og yfirlæknir meltingarlækninga á Landspítala frá árinu 2023.
Sigríður Þórdís Valtýsdóttir lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 1993, sérfræðinámi í lyflækningum frá Akademíska sjúkrahúsinu í Uppsölum árið 2000 og sérfræðiviðurkenningu í gigtlækningum árið 1999. Þá lauk hún doktorsprófið árið 2001 auk diplóma í opinberri stjórnsýslu árið 2013. Sigríður Þórdís gegndi starfi yfirlæknis á lyflækningadeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands frá árinu 2008 til ársins 2014. Hún hefur gegnt starfi yfirlæknis almennra lyflækninga á Landspítala frá árinu 2015.

„Það er mikill heiður að hafa verið valin til að sinna þessu starfi. Þær eru margar áskoranirnar en þeim fylgja tækifæri til að efla og byggja upp starfsemina til hagsbóta fyrir sjúklinga og samfélagið í heild.“
- Sigríður Þórdís Valsdóttir

„Ég er afar þakklátur fyrir að fá að taka þátt í að móta starf okkar á sjúkrahúsinu, enda ljóst að fram undan eru auðvitað áskoranir en jafnframt mörg tækifæri.“
- Helgi Kristinn Sigmundsson
