Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Ólafur Baldursson ráðinn forstöðumaður þróunar klínískrar þjónustu í nýjum Landspítala

28. nóvember 2025

Ákveðið hefur verið að Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, færist úr starfi framkvæmdastjóra lækninga í stöðu forstöðumanns þróunar klínískrar þjónustu í nýjum Landspítala. Ákvörðunin er hluti af aukinni áherslu forstjóra og framkvæmdastjórnar á þróun starfseminnar í þeim nýju byggingum sem nú rísa við Hringbraut.

Ólafur mun ganga til liðs við þá aðila innan og utan Landspítala sem unnið hafa að byggingarverkefninu og tengdum verkefnum hingað til og mun starfa í beinu umboði forstjóra. Starf framkvæmdastjóra lækninga verður auglýst laust til umsóknar á næstunni.

Þróun klínískrar þjónustu í nýjum spítala er víðtækt verkefni sem nær til allra starfseininga með áherslu á klíníska starfsemi, kennslu, vísindastarf og nýsköpun. Innan verkefnisins verður unnið að framtíðarsýn, stefnu og áætlanagerð, bæði hvað varðar klínísk málefni og faglegar forsendur rekstraráætlana.

„Þetta er afar mikilvægt og spennandi verkefni og í raun einstakt tækifæri til þess að endurmóta starfsemina í takt við nýja tíma og nýjar áskoranir. Ég hef á undanförnum árum fengið vaxandi áhuga á breytingastjórnunarverkefnum og framtíðaráætlunum um mönnun og rekstur, sem ég hef unnið að bæði í heilbrigðisráðuneytinu og á Karolinska-háskólasjúkrahúsinu í Stokkhólmi. Þetta verkefni er því kærkomið og eðlilegt framhald fyrir mig. Að auki hef ég sinnt starfi framkvæmdastjóra lækninga frá árinu 2009 og því vissulega kominn tími til að breyta til,“ segir Ólafur.

„Verkefnið mun útheimta víðtæka samvinnu allra aðila sem að því koma og verður ærið verk að stilla alla þá strengi saman. Markmiðið er framúrskarandi sérhæfð heilbrigðisþjónusta á háskólasjúkrahúsi Íslands til langs tíma. Verðmæti slíkrar þjónustu fyrir samfélagið er óumdeilt, en til þess að ná markmiðinu þurfa allir hlutaðeigandi að vinna þétt og vel saman.“

„Ég er mjög ánægður að fá Ólaf til að veita þróun klínískrar þjónustu í sameinuðum Landspítala við Hringbraut forstöðu,” segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

„Aðstöðuleysi hefur hamlað þróun starfsemi spítalans um margra ára skeið en nú hillir undir flutning í meðferðarkjarnann og rannsóknarhúsið. Það mun hafa gríðarleg áhrif á útfærslu þjónustunnar og verður án efa stærsta umbreytingarverkefni sögunnar hér á landi sem Ólafur mun leiða með okkar öflugu stjórnendum og starfsfólki.”