Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Nýtt samstarf eflir sérnám í öldrunarlækningum

2. júní 2025

Í vikunni sem leið var undirritaður samstarfssamningur milli Landspítala og hjúkrunarheimilisins Eirar sem eflir enn frekar menntun lækna í öldrunarlækningum.

Samkvæmt samningnum geta sérnámslæknar sinnt allt að fjögurra mánaða starfsnámi á Eir, annaðhvort á öldrunarendurhæfingardeild eða á heimilisdeildum.

Á Eir er rekin 44 rúma endurhæfingardeild í samstarfi við Landspítalann, þar sem tekið er við sjúklingum eftir bráðainnlögn á Landspítalann eða samkvæmt tilvísun frá göngudeild öldrunarlækninga og eftir valkvæðar liðskiptaaðgerðir. Árlega eru um 350 innlagnir á deildina.

Framhald í uppbyggingu sérgreinarinnarÞetta samstarf stuðlar að áframhaldandi þróun öldrunarlækninga á Íslandi með því að veita læknunum víðtækari reynslu af heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða utan spítala. Markmiðið er að dýpka skilning lækna á heildstæðri umönnun aldraðra og tryggja betri samfellu milli mismunandi þjónustustiga.

Fjölgun sérfræðinga í öldrunarlækningum er mikilvæg fyrir íslenskt samfélag þar sem þörfin fyrir slíka þjónustu eykst stöðugt. Vel þjálfaðir sérfræðingar geta komið í veg fyrir óþarfa spítalainnlagnir og stuðlað að betri lífsgæðum aldraðra á meðan þeir búa í sínu eigin umhverfi.

Samningurinn var undirritaður af Tómasi Þór Ágústssyni fyrir hönd Landspítala og Ólafi Helga Samúelssyni fyrir hönd Eirar og bætist við áframhaldandi samstarf Landspítala við SAk á sviði sérnáms í öldrunarlækningum.