Ný stefna um notkun gervigreindar
28. janúar 2026
Landspítali hefur sett sér stefnu um notkun gervigreindar til að marka ramma um þróun og notkun gervigreindarlausna á spítalanum. Stefnan gildir út árið 2028 og nær til allrar starfsemi spítalans þar sem gervigreind kemur við sögu, hvort sem er í klínískri þjónustu, stoðþjónustu, stjórnun eða rannsóknum.

Markmið stefnunnar er að bæta gæði og aðgengi þjónustu Landspítala, auka skilvirkni og hagkvæmni, styðja við vísindi, nýsköpun og rannsóknir, og tryggja ábyrga og örugga innleiðingu. Í stefnunni kemur m.a. fram að gervigreind sé ætluð sem stuðningstæki en ekki staðgengill starfsfólks – allar mikilvægar ákvarðanir sem snerta sjúklinga skuli teknar af manneskju og heilbrigðisstarfsmaður beri endanlega ábyrgð. Notkun gervigreindar á spítalanum skuli vera gagnsæ og sjúklingar eigi almennt að vera upplýstir þegar gervigreind er notuð í starfseminni. Í stefnunni segir einnig að áður en ný gervigreindarlausn sé tekin í notkun skuli meta mögulega áhættu fyrir öryggi sjúklinga og þjónustu.
Gervigreind er lykiltæki til að efla heilbrigðisþjónustu til framtíðar og mæta kröfum samfélagsins um árangur og hagkvæmni. Stefnu spítalans um notkun gervigreindar er ætlað að tryggja að sú vegferð fari fram af ábyrgð, með öryggi sjúklinga, traust og fagmennsku að leiðarljósi. Landspítali mun nýta tækifæri gervigreindar til fulls með skýr markmið, viðmið og öflugu innleiðingarstarfi.
Hér má skoða stefnuna í heild sinni:
