Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Ný rannsókn bendir til að viðtekin meðferð eftir kransæðahjáveitu tvöfaldi líkur á alvarlegum blæðingum

17. september 2025

Tvöföld blóðflöguhemjandi meðferð, sem alþjóðlegar leiðbeiningar mæla með eftir kransæðahjáveituaðgerð, reynist ekki bæta horfur sjúklinga einu ári eftir aðgerð umfram það sem hjartamagnýl eitt og sér gerir. Raunar tvöfaldar sú meðferð líkurnar á alvarlegum blæðingum hjá sjúklingum. Þetta sýnir ný norræn rannsókn sem náði til yfir 2.000 sjúklinga á hjarta- og lungnaskurðdeildum 22 sjúkrahúsa á Norðurlöndum.

Anders Jeppsson, prófessor og hjartaskurðlæknir á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg, stýrði rannsókninni en hann hefur jafnfram unnið á Landspítala við afleysingar og sem rannsóknarprófessor við HÍ. Mynd: Sahlgrenska.

Sagt er frá þessum niðurstöðum í nýjasta hefti vísindatímaritsins New England Journal of Medicine (NEJM) en þetta er í fyrsta sinn sem norræn rannsókn í hjartaskurðlækningum nær inn á síður þessa virta tímarits.

Rannsóknin sem um ræðir nefnist TACSI og tók hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala þátt í henni ásamt öðrum slíkum deildum á Norðurlöndunum. Rannsóknin náði til 2.201 kransæðahjáveitusjúklings með svokallað brátt kransæðaheilkenni, þ.e. hvikula hjartaöng eða hjartadrep, en tæplega 60 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni hér á landi.Sjúklingunum í rannsókninni var slembiraðað í tvo hópa, annar fékk hjartamagnýl eftir skurðaðgerðina en hinn hjartamagnýl og blóðflöguhemjandi lyfið ticagrelor (Brilique®).

Við eftirfylgni einu ári eftir aðgerðina reyndist ekki vera munur á lifun sjúklingahópanna tveggja eða tíðni kransæðastíflu, heilablóðfalls eða endurtekinnar aðgerðar. Hins vegar var tíðni alvarlegra blæðinga tvöfalt hærri í síðarnefnda hópnum og var aðallega um að ræða blæðingar frá meltingarvegi og blóðnasir.

Höfundar benda á að ljóst sé að allir sjúklingar eigi að fá hjartamagnýl eftir kransæðahjáveituaðgerð en rannsóknin styðji ekki þá fullyrðingu að betri árangur náist með því að gefa þeim einnig ticagrelor – þvert á móti tvöfaldist hættan á alvarlegum blæðingum. Alþjóðlegar leiðbeiningar kveða á um að umræddur sjúklingahópur eigi að fá bæði lyfin en höfundar rannsóknarinnar segja ljóst að niðurstöður hennar muni leiða til breytinga á klínískum leiðbeiningum.

Til stendur að fylgja sjúklingunum frekar eftir næstu árin eða í allt að 10 ár eftir aðgerð.

Grunnur að rannsókninni lagður á ÍslandiFyrsti höfundur vísindagreinarinnar og aðalrannsakandi er hjartaskurðlæknirinn Anders Jeppsson, prófessor og yfirlæknir á Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg. Anders hefur um árabil leyst af sem sérfræðingur á hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala og starfaði jafnframt sem rannsóknarprófessor við læknadeild Háskóla Íslands (HÍ) á vormisseri 2023 þar sem hann lagði grunninn að TACSI-rannsókninni. Stjórnandi rannsóknarinnar á Íslandi var Tómas Guðbjartsson, prófessor við læknadeild og yfirlæknir á Landspítala, en einnig tóku þátt Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum við læknadeild HÍ, og Jóhanna Lind Guðmundsdóttir og Fríða Björk Skúladóttir, hjúkrunarfræðingar á Landspítala.

Sem fyrr segir er þetta í fyrsta skipti sem norræn rannsókn í hjartaskurðlækningum nær inn á síður NEJM sem er eitt virtasta vísindarit heims á sviði klínískrar læknisfræði. Sama dag og rannsóknin kom út í NEJM voru niðurstöðurnar kynntar á þingi European Society of Cardiology í Madríd, en það er stærsta vísindaráðstefna heims í hjartalækningum. Þá stendur til að kynna rannsóknina á þingi norrænna hjarta- og lungnaskurðlækna (SATS) í Hörpu fimmtudaginn 18. september.

Fyrirspurnum um rannsóknina svarar Karl Andersen (andersen@landspitali.is), farsími: 825-3622.