Námsbraut í nýsköpun á Landspítala
10. desember 2024
Landspítali hefur kynnt til leiks námsbraut í nýsköpun í samstarfi við HR, HÍ, og aðila í nýsköpunarsenunni.
Námið snýst um að veita klínísku starfsfólki þjálfun í að keyra nýsköpunarverkefni áfram þannig að hægt sé að innleiða tækninýjungar með skilvirkari hætti á spítalanum.
Það er mikilvægt að læknar komi að sköpun heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar með leiðandi hætti og í nánu samstarfi við þá aðila sem geta komið þjónustunni á næsta skref. Til að mæta þeim áskorunum sem við sem samfélag stöndum frammi fyrir þurfum við lækna sem geta þróað starfsemina og þjónustuna á faglegan hátt.
Námið tekur eitt ár og hefur verið sérhannað til að bæta nýsköpunarfærni þátttakenda með formlegri kennslu og verkefnavinnu undir handleiðslu innlendra og erlendra sérfræðinga í nýsköpunar- og þróunarvinnu. Námsbrautin hentar klínískum fagaðilum sem hafa áhuga á að búa til nýjar lausnir sem nýtast sjúklingum, starfsfólki eða sem bæta starfsemina. Námið er krefjandi og þarf virka þátttöku til að standast námskröfur en unnið verður bæði í styttri kennslulotum og samfelldri verkefnavinnu.
Viðmælendur í myndbandinu eru Margrét Dís Óskarsdóttir, yfirlæknir sérnáms og Sigurður Þórarinsson, tæknistjóri þróunarsviðs.
Hægt er að kynna sér námið betur á sérnámsvef Landspítala.
https://player.vimeo.com/video/1036653840?badge=0&autopause=0&player%5Fid=0&app%5Fid=58479
