Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Heiðranir á ársfundi Landspítala - Jóhanna Guðrún Pálmadóttir

22. ágúst 2025

Á hverju ári heiðrar Landspítali starfsfólk sem hefur skarað fram úr og lagt sitt af mörkum til starfsemi spítalans svo eftir er tekið.

Jóhanna Guðrún Pálmadóttir, sérfræðingur í meltingarsjúkdómum barna á Barnaspítala Hringsins, var heiðruð fyrir fagmennsku á ársfundi Landspítala í maí síðastliðnum.

Það sem einkennir góðan barnalækni, að mati Jóhönnu Guðrúnar, er að hann hlustar á foreldra og er tilbúinn að veita stuðning. Þótt ekki sé hægt að laga öll vandamál geta læknarnir alltaf verið til staðar.

Úr tilnefningu: „Jóhanna Guðrún hefur verið leiðandi í að þróa verklag, einfalda ferla og stytta biðtíma barna sem leita til Barnaspítala Hringsins vegna meltingarvandamála. Hún er einstaklega samviskusöm og umhugað um að þjónustan við börnin sé sem allra best og spítalinn nýtur góðs af framlagi hennar til barnalækninga og meltingarsjúkdóma barna.“

Heiðrað er í flokkum sem samsvara gildum spítalans: Umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Að auki er heiðrað í flokknum Vinnustaðurinn okkar þar sem heiðraðir eru traustir vinnufélagar sem gera vinnudaginn betri.

Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.

Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.

Ásta Fann­ey er tal­in einn af fremstu gjörn­ingalista­mönn­um lands­ins. Hún hef­ur sýnt og flutt verk sín á söfn­um og hátíðum víða um heim og verður full­trúi Íslands á Fen­eyja­tvíær­ingn­um í mynd­list árið 2026 en tví­ær­ing­ur­inn er tal­inn einn mik­il­væg­asti vett­vang­ur sam­tíma­list­ar á heimsvísu.

Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.

https://player.vimeo.com/video/1097891249?badge=0&autopause=0&player%5Fid=0&app%5Fid=58479