Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Þessi frétt er meira en árs gömul

Hællinn upp! Alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna

27. nóvember 2024

Þann 21. nóvember síðastliðinn var haldinn Alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna þar sem vakin er athygli á forvörnum gegn þrýstingssárum.

Þrýstingssár eru áverkar á húð og undirliggjandi vef sem myndast vegna staðbundins þrýstings eða álags. Þrýstingssár eru líka nefnd legusár því að þau myndast oftast hjá fólki sem á erfitt með að hreyfa sig og situr eða liggur mikið í sömu stellingu. Því lengur sem þrýstingur varir því meiri hætta er á að alvarlegt sár myndist.

Í ár ákvað Landspítali að einblína á hælinn, en næstflest þrýstingssár hjá fullorðnum myndast þar.

Gæðakannanir á Landspítala sýna að um 25% þrýstingssára eru á hælum og flest þeirra eru alvarleg, með tilheyrandi vanlíðan, lengri sjúkrahúslegu og kostnaði. Mjög grunnt er að beini á hælasvæðinu en auðvelt er að fyrirbyggja þrýstingssár sem myndast þar með því að lyfta hælnum upp frá dýnu.

Ákveðið var að setja upp „Hælahorn“ í þremur byggingum Landspítala þennan dag, þar var m.a. í boði fræðsla og sýnikennsla á því hvernig megi fyrirbyggja myndun þrýstingssára á hæl m.a. með notkun hælahlífa.

Á vef Landspítala má nálgast ítarlegt fræðsluefni um þrýstingssáravarnir.

Hællinn upp! Alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna
Hællinn upp! Alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna
Hællinn upp! Alþjóðlegur dagur þrýstingssáravarna