Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Fiix-teymið fékk alþjóðlega viðurkenningu

12. júní 2025

Rannsóknarteymi Fiix prófsins á Landspítala fékk þann 9. júní sl. alþjóðlega viðurkenningu sem kallast „UNIVANTS of Healthcare Excellence Award Team of Distinction 2025“.

Viðurkenningin var veitt níu teymum um allan heim af sjö stórum félagasamtökum á heilbrigðissviði fyrir mikilvæga framþróun í lækningum sem brýtur hefðir („avant garde“). Skilyrðið er aðkoma lækningarannsóknastofa í samstarfi við aðrar sérgreinar.

Fiix-teymið fékk viðurkenninguna fyrir að hafa fundið upp nýtt blóðstorkupróf, Fiix próf, á rannsóknarstofum Landspítala. Prófið gerir áhrif gamla blóðþynningarlyfsins warfaríns stöðugri en mögulegt var með gamla prófinu, PT-INR. Fiix prófið hefur verið notað á Landspítala frá 2016. Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræði á Landspítala 1998-2024, og Brynja Guðmundsdóttir, lífeindafræðingur á sama stað, gerðu tilraunir frá árinu 2009. Þau fundu upp prófið og framkvæmdu síðan, í samstarfi við aðra, þrjár stórar klínískar rannsóknir á breyttri stýringu warfaríns en warfaríni hefur verið stýrt í 70 ár með gamalli aðferð, PT-INR, um allan heim, en Páll Torfi og Brynja settu spurningamerki við þá aðferð.

Í klínísku rannsóknunum voru bornar saman klínískar niðurstöður skömmtunar warfaríns með nýju Fiix aðferðinni samanborið við hefðbundnu PT-INR aðferðina. Niðurstöðurnar, sem hafa m.a. verið birtar í The Lancet Haematology (2015), Blood (2021) og í Blood VTH (2025), eru samhljóða og benda til þess að sé warfaríni stýrt með Fiix-prófinu fækki blóðtöppum í fólki í blönduðum sjúklingahópum eða með gáttatif um u.þ.b. 50%, bæði miðað við hefðbundna warfarínmeðferð og einnig í samanburði við þrjú ný blóðþynningarlyf (Eliquis, Xarelto of Pradaxa). Blæðingartíðni er ekki aukin.

Davíð O. Arnar, prófessor og yfirlæknir hjartalækninga á Landspítala, Brynja Guðmundsdóttir, lífeindafræðingur og fyrrverandi þróunarverkefnastjóri, Páll Torfi Önundarson, prófessor emeritus og fyrrverandi yfirlæknir blóðmeinafræði á Landspítala, og Einar S. Björnsson, prófessor og yfirlæknir á kennslu- og rannsóknardeild Landspítala. Þess má geta að mun fleiri komu að verkefninu en UNIVANTS heimilar aðeins takmarkaðan fjölda nafna á listann og myndina.