Þessi frétt er meira en árs gömul
Alþjóðlegur dagur næringar
19. nóvember 2024
Alþjóðlegur dagur næringar var haldinn 14. nóvember síðastliðinn. Dagurinn er haldinn árlega um allan heim og geta sjúkrastofnanir tekið þátt í eins dags stöðumati á næringarástandi og verkferlum sem tengjast næringu.
Í tilefni dagsins framkvæmdu næringarfræðingar Landspítala ásamt nemum í klínískri næringarfræði mat á áhættu á vannæringu hjá inniliggjandi sjúklingum á Landspítala en samkvæmt verklagi skal meta áhættu á vannæringu við innlögn sjúklings.
Af þeim 406 sem voru skimaðir fyrir áhættu á vannæringu þann 14. nóvember voru 36% með sterkar líkur á vannæringu.
Niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður annarra landa á alþjóðlegum degi næringar
Niðurstöður eru einnig í samræmi við fyrri rannsóknir á Landspítala þar sem tíðni vannæringar er 20-60%, mismunandi eftir sjúklingahópum.
Ef sterkar líkur eru á vannæringu skal senda tilvísun á Næringarstofu í Heilsugátt.
Næringarfræðingar á Landspítala veita næringarmeðferð við vannæringu en vannæring meðal inniliggjandi sjúklinga er oft tengd sjúkdómi og/eða meðferð hans. Vannæring getur haft í för með sér lengri sjúkrahúslegu og meiri kostnað fyrir heilbrigðiskerfið.
Áróra Rós Ingadóttir er deildarstjóri Næringarstofu en þar starfa um 22 næringarfræðingar í um 15 stöðugildum. Næringarfræðingar veita einstaklingsmiða næringarmeðferð til sjúklinga Landspítala, bæði inniliggjandi og á göngudeildum. Starfsmenn Næringarstofu vinna í ýmsum þverfaglegum teymum á Landspítala og veita ráðgjöf til heilbrigðisstarfsmanna Landspítala. Næringarstofa er leiðandi í gerð fræðsluefnis og verklags tengt næringarmeðferð sjúklinga á landsvísu. Öflugt rannsóknarstarf fer fram á Næringarstofu í samstarfi við Háskóla Íslands og taka næringarfræðingar á Landspítala þátt í kennslu í klínískri næringarfræði við Háskóla Íslands ásamt umsjón með starfsnámi nemenda í klínískri næringarfræði á meistarastigi.
Erna Petersen hefur starfað sem næringarfræðingur á Barnaspítalanum undanfarin 6 ár og sinnir bæði bráðveikum inniliggjandi börnum og langtíma eftirfylgd á göngudeild. Mörg þessara barna eru langveik með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma og þurfa næringarstuðning í langan tíma á meðan önnur glíma við tilfallandi veikindi og þurfa meðferð til að fyrirbyggja vannæringu. Erna vinnur í náinni samvinnu við aðrar fagstéttir og foreldra sem þurfa oft að leggja á sig mikla vinnu við að næra veikt barn.
Guðlaug Gísladóttir hefur starfað sem næringarfræðingur á taugalækningadeild sl 17 ár og sinnir m.a sjúklingum með parkinson, MND og þá sem hafa fengið heilablóðfall. Þessir hópar eiga það sameiginlegt að geta verið með kyngingarerfiðleika á mismunandi stigum og eiga því oft erfitt með að nærast. Næringarmeðferð er einstaklingsmiðuð fyrir hvern sjúkling. Oft er þörf fyrir næringu um slöngu og fæði með breyttri áferð ásamt orku- og næringarviðbót til þess að uppfylla orku- næringarefnaþörf.
Bjarki Þór Jónasson lauk námi í klínískri næringarfræði í júní síðastliðinn. Hann hefur starfað á ýmsum deildum meðfram náminu en starfar nú á hjartadeild og nýrnadeild. Næringarfræðingar á nýrnadeild veita til dæmis fræðslu til sjúklinga með skerta nýrnastarfsemi og þurfa að takmarka prótein í fæði. Nýrun losa líkamann við niðurbrotsefni próteina og því getur mikil neysla þeirra aukið álag á nýru. Prótein er hins vegar mjög mikilvægt næringarefni og því mikilvægt að skerða ekki neyslu á því umfram það sem nauðsynlegt er.
