90 komur á bráðamóttöku vegna hálkuslysa
22. janúar 2026
Mikið álag hefur verið á Landspítala vegna gríðarlegrar hálku sem var á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Þriðjudaginn 20. janúar komu alls 90 einstaklingar á bráðamóttöku spítalans vegna hálkuslysa, þar af 20 börn og 28 sem voru 65 ára og eldri.

Reyndust alls 35 af þeim vera með beinbrot eða liðhlaup. Fimm einstaklingar þurftu að leggjast inn á Landspítala vegna þessara áverka til sérhæfðari meðferðar.
Eftir því sem næst verður komist er þetta mesti fjöldi sem hefur leitað á bráðamóttöku á einum sólarhring vegna hálkuslysa í sögu deildarinnar.
Hálkan sem myndaðist þessa daga hefur valdið mörgum heilsutjóni og slíku fylgir umtalsverður kostnaður fyrir samfélagið. Mikilvægt er að efla hálkuvarnir þegar slíkar aðstæður skapast, auk þess sem eindregið er mælt með því að fólk noti mannbrodda í hálkunni og fari varlega.
