Viðurkenning Lífsbrúar fyrir framlag til sjálfsvígsforvarna 2025
11. september 2025
Þann 1. september síðastliðinn veitti Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna viðurkenningu til liðsheildar og einstaklings fyrir mikilsvert framlag til sjálfsvígsforvarna á Íslandi, fyrir að auka þekkingu á málefninu og stuðla að bættri heilsu og líðan landsmanna.

María Heimisdóttir, Sr. Svavar Stefánsson og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir
Handhafar viðurkenningarinnar 2025
Sr. Svavar Stefánsson - í flokki einstaklinga
Geðgjörgæsla Landspítalans, 32 C - í flokki liðsheilda
Verðlaunin voru veitt á formlegri opnun vitundarvakningarinnar Gulur september sem haldin var í Samfélagshúsinu Vitatorgi. Gulur september leggur í ár áherslu á eldra fólk og var því vel við hæfi að hafa viðburðinn á þessum samkomustað eldra fólks.
Vel var mætt á opnunina þar sem boðið var upp á fjölbreytta dagskrá. Ávarp fluttu Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur, María Heimisdóttir landlæknir og Alma Möller heilbrigðisráðherra. Kristján Kristjánsson (KK) sá um að flytja tónlist og Birna Róbertsdóttir forstöðumaður Borga, félags- og menningarmiðstöðvar, flutti erindið Gleðin við að eldast. Það voru Anna Margrét Bjarnadóttir, verkefnastjóri Guls september, og frú Halla Tómasdóttir forseti sem lokuðu dagskránni með samtali um geðheilbrigði og sjálfsvígsforvarnir.

Gulur september
Lífsbrú - miðstöð sjálfsvígsforvarna
Nánar um verðlaunahafa Lífsbrúar
Hægt er að senda nafnlaust inn tilnefningar til viðurkenningar Lífsbrúar, allan ársins hring
Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is
Hvar er hjálp að fá?
Fólki með sjálfsvígshugsanir er bent á: Píeta samtökin, s. 552-2218, Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið 1717.is, Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is. Í neyð hringið í 112.
Varðandi stuðning eftir missi í sjálfsvígi er bent á Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar, s. 1700, og netspjallið heilsuvera.is, Sorgarmiðstöð, s. 551-4141, og sorgarmidstod@sorgarmidstod.is, síma Píeta samtakanna, 552-2218. Í neyð hringið í 112.