Fara beint í efnið

Vefur embættis landlæknis flytur til Ísland.is

15. febrúar 2023

Í dag tekur embætti landlæknis í notkun nýjan vef undir merkjum Ísland.is og fylgir þar með í fótspor fjölmargra opinberra stofnanna.

Landlæknir vefborði

Við þetta stóra og mikilvæga skref var vefur embættis landlæknis einfaldaður til muna en um leið lagt upp með bæta upplýsingagjöf, notendaupplifun og aðgengi. Er þetta í takt við áherslur sem finna má í stefnu um stafræna þjónustu hins opinbera.

Á nýja vefnum á Ísland.is geta notendur nálgast upplýsingar um öll helstu verkefni embættis landlæknis, þar á meðal um starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna, rekstur heilbrigðisþjónustu, eftirlit og gæði heilbrigðisþjónustu, lýðheilsu, heilsueflingu og forvarnir, sóttvarnir, smitsjúkdóma og bólusetningar. Jafnframt er vefsvæði embættis landlæknis mikilvæg uppspretta margvíslegrar tölfræði um heilbrigði þjóðarinnar og þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi. Þá er enn fremur unnið að því að öll samskipti við embættið, t.d. umsóknir um starfsleyfi, móttaka kvartana o.fl., verði rafræn.

Vefur embættis landlæknis þjónar þannig margþættum tilgangi fyrir bæði fagfólk í heilbrigðisþjónustu og almenning. Nýr vefur embættisins er langtíma verkefni sem mun taka breytingum með bættum upplýsingum, gagnvirkri birtingu heilbrigðisupplýsinga og þeim nýjungum sem þörf er á til að mæta réttmætri kröfu notenda um áreiðanleika, einfaldleika og skilvirkni.

Alma D. Möller landlæknir:

"Þegar heimsfaraldur COVID-19 brast á þurfti embætti landlæknis að miðla upplýsingum hratt og örugglega. Þá kom glöggt í ljós að gamli vefurinn var barn síns tíma. Þá þegar var farið að huga að nýjum vef og er því sérlega ánægjulegt að opna hann í dag. Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóg og Stafrænu Íslandi og fyrirtækinu Stefnu fyrir gott samstarf. Jafnframt vinnur embættið að því að gera alla ferla og samskipti rafræn sem mun bæta þjónustu og auka skilvirkni."

Hinn nýi vefur leysir af hólmi eldri vef sem verið hefur í notkun í liðlega áratug eða síðan 2012. Hafi notendur athugasemdir eða ábendingar um það sem betur mætti fara má hafa samband við Hildi Björk Sigbjörnsdóttur vefstjóra (hildur.b.sigbjornsdottir@landlaeknir.is). Ábendingum verður tekið fagnandi.

Skoða nýjan vef embættis landlæknis