Úthlutun úr Lýðheilsusjóði 2023
28. febrúar 2023
Úthlutað var úr Lýðheilsusjóði föstudaginn 24. febrúar í húsakynnum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
Athöfn þar sem úthlutað var úr Lýðheilsusjóði var haldin föstudaginn 24. febrúar í húsakynnum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, úthlutaði rúmum 86 milljónum króna í styrki úr Lýðheilsusjóði til 150 verkefna og rannsókna. Styrkt voru fjölbreytt verkefni um land allt, ætluð öllum aldurshópum. Áhersla er lögð á að styrkja aðgerðir sem miða m.a. að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Einnig var áhersla á áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.
Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.
Hlutverk Lýðheilsusjóðs er skilgreint í lögum um landlækni og lýðheilsu og í lýðheilsustefnu heilbrigðisráðuneytisins.
Listi yfir verkefni og styrkþega 2023.