Sveitarfélagið Stykkishólmur gerist Heilsueflandi samfélag
31. mars 2023
Sveitarfélagið Stykkishólmur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 20. mars 2023.
Sveitarfélagið Stykkishólmur varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 20. mars síðastliðinn þegar Jakob B. Jakobsson bæjarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Stykkishólmi. Viðstaddir voru m.a. nemendur í 4.-10. bekk grunnskólans og fjölmargir íbúar. Í framhaldi af undirskriftinni tóku viðstaddir á öllum aldri þátt í hressandi zumba dansi undir stjórn Agnesar Sigurðardóttur. Í HSAM stýrihópi sveitarfélagsins eiga sæti fulltrúar ráðhúss, leikskóla, grunnskóla, ungmennaráðs, Aftanskins/öldungaráðs, æskulýðs- og íþróttanefndar og frá Íþróttamiðstöð auk þess sem leitað hefur verið til HVE. Magnús Bæringsson tómstunda- og æskulýðsfulltrúi er HSAM tengiliður Sveitarfélagsins Stykkishólms.
Ljósmynd: Sumarliði Ásgeirsson
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Sveitarfélagið Stykkishólmur er 39. samfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og með Snæfellsbæ, sem bættist í hópinn sama dag, búa nú um 95,3% landsmanna í slíku samfélagi.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um Lýðheilsuvísa
Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags
gigja.gunnarsdottir@landlaeknir.is