Snæfellsbær gerist Heilsueflandi samfélag
31. mars 2023
Snæfellsbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 20. mars 2023.
Snæfellsbær varð formlega aðili að Heilsueflandi samfélagi (HSAM) þann 20. mars síðastliðinn þegar Kristinn Jónasson bæjarstjóri og Alma D. Möller landlæknir undirrituðu samning þess efnis í Ráðhúsi Snæfellsbæjar á Hellissandi. Viðstaddir voru aðilar úr bæjarstjórn og HSAM stýrihópi sveitarfélagsins þar sem eiga fulltrúa grunnskóli og leikskóli Snæfellsbæjar, íþrótta- og æskulýðsnefnd, velferðarnefnd og atvinnuveganefnd. Kristfríður Rós Stefánsdóttir íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar er HSAM tengiliður sveitarfélagsins.
Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að vinna með markvissum hætti að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Í slíku samfélagi er heilsa og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Starf Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskóla, Heilsueflandi vinnustaða og heilsuefling eldri borgara er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags. Með innleiðingu Heilsueflandi samfélags vinna sveitarfélög meðal annars að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Snæfellsbær er 40. sveitarfélagið sem gerist Heilsueflandi samfélag og búa nú um 95,3% landsmanna í slíku samfélagi.
Nánar um Heilsueflandi samfélag
Nánar um Lýðheilsuvísa
Nánar um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags
gigja.gunnarsdottir@landlaeknir.is