Smitsjúkdómar – nýtt mælaborð sóttvarnalæknis
11. apríl 2024
Sóttvarnalæknir hefur nú birt gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um valda smitsjúkdóma sem eru vaktaðir samkvæmt sóttvarnalögum.
Mælaborðið byggir á sjúkdómsgreiningum frá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri og sýnir fjölda tilfella eftir völdum bakgrunnsbreytum. Mælaborðið sýnir einnig tíðni sjúkdómanna, þ.e. fjölda tilfella á hverja 100.000 íbúa, fyrir hvert ár.
Tilgangurinn með mælaborðinu er að bæta aðgengi að tölulegum upplýsingum um smitsjúkdóma sem sóttvarnalæknir vaktar. Mælaborðið tekur við af excel skjölum á vef embættis landlæknis sem geyma upplýsingar um fjölda tilfella valinna smitsjúkdóma til ársins 2021. Stefnt verður að því að uppfæra mælaborðið einu sinni á ári, samhliða útgáfu Ársskýrslu sóttvarna fyrir undangengið ár.
Mælaborðið er í áframhaldandi þróun. Til dæmis vantar nú upplýsingar um kyn í gögn fyrir COVID-19 og verður mælaborðið uppfært með þeim upplýsingum þegar þær liggja fyrir.
Sóttvarnalæknir