Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Sjálfsvíg janúar - júní 2024

2. júní 2025

Embætti landlæknis hefur gefið út bráðabirgðatölur um sjálfsvíg fyrstu sex mánuði ársins 2024.

Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er skráð vísvitandi sjálfsskaði (ICD-10 kóðar: X60-X84). Skráningu dánarmeina er ekki hægt að ljúka fyrr en öll gögn og krufningaskýrslur frá réttarmeinafræðideild Landspítala hafa borist embætti landlæknis. Ferlið getur því verið nokkuð tímafrekt. Nú hafa bráðabirgðatölur um fjölda sjálfsvíga á fyrri hluta ársins 2024 verið gefnar út en hafa ber í huga að þær geta breyst þegar uppgjör alls ársins liggur fyrir.

Fjöldi sjálfsvíga fyrstu sex mánuði ársins 2024 var 22 eða 5,7 á hverja 100.000 íbúa. Þessar tölur eru svipaðar fyrri árum en meðalfjöldi sjálfsvíga fyrstu 6 mánuði áranna 2019-2023 var 19 eða 5,3 á hverja 100.000 íbúa. Á þessu fimm ára tímabili, 2019-2023, var fjöldi sjálfsvíga fyrstu 6 mánuði hvers árs á bilinu 15–25 eða 4,3–6,6 á hverja 100.000 íbúa. Á fyrri hluta árs 2024 féll enginn undir 20 ára fyrir eigin hendi.

Ábyrg umfjöllun um sjálfsvíg

Vegna fámennis þjóðarinnar þá geta litlar breytingar á fjölda valdið nokkrum sveiflum í dánartíðni milli ára. Talsvert miklar sveiflur þurfa að verða til þess að hægt sé að staðhæfa að um marktæka breytingu sé að ræða. Því er mikilvægt að túlka ekki 6 mánaða bráðabirgðatölur sem vísbendingu um aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga. Embætti landlæknis vinnur, ásamt fjölda samstarfsaðila, að innleiðingu nýrrar aðgerðaáætlunar til að fækka sjálfsvígum á Íslandi 2025 - 2030 en þar er um að ræða fjölþættar aðgerðir.

Embætti landlæknis gaf í febrúar 2025 út ráðleggingar fyrir fjölmiðlafólk um ábyrga umfjöllun um sjálfsvíg. Rannsóknir sýna að umfjöllun þar sem einblínt er á batasögur og hjálparúrræði geta haft þau áhrif að einstaklingar í vanlíðan leiti sér frekar hjálpar og að sjálfsvígum fækki.

Það er hjálp til staðar

Mikilvægt er að þau sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda, hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717, eða á netspjalli 1717.is, við Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 1700 eða í netspjalli 1700.is, á heilsuvera.is, í síma Píeta samtakanna 552-2218. Píeta samtökin bjóða einnig uppá ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.

Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má benda á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð í síma 551-4141 og hjá Píeta samtökunum í síma 552-2218.

Frekari upplýsingar
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri Lífsbrúar - miðstöðvar sjálfsvígsforvarna, lýðheilsusviði
gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is
Jón Óskar Guðlaugsson,
verkefnastjóri, heilbrigðisupplýsingasviði