Fara beint í efnið

Rekstraraðilaskrá birt á vef embættis landlæknis

2. nóvember 2023

Í lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 er landlækni veitt heimild til að birta upplýsingar úr skrá yfir rekstraaðila í heilbrigðisþjónustu. Markmið slíkrar birtingar er að tryggja gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í skránni, sem nú er aðgengileg á vef embættisins, eru upplýsingar um sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólk, fyrirtæki og stofnanir í heilbrigðisþjónustu, samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 og reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur nr. 786/2007.

Í skránni eru aðeins þeir sem hafa gilda staðfestingu landlæknis á rekstri í heilbrigðisþjónustu.

Ýmsir leitarmöguleikar ættu að auðvelda notkun skrárinnar. Fyrir utan að geta leitað að nafni og/eða aðsetri heilbrigðisþjónustu, þá er hægt að velja heilbrigðisstétt til að leita að öllum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum innan hennar.

Áfram verður unnið að því að bæta upplýsingum í skrána og bæta hana eftir þörfum. Skráin er uppfærð daglega og eru upplýsingar því birtar með fyrirvara um breytingar.

Embætti landlæknis minnir á að ekki er heimilt að hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu nema staðfesting landlæknis liggi fyrir, sbr. lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007.

Upplýsingar um rekstur heilbrigðisþjónustu og eyðublöð má finna á vef landlæknis.

Athugasemdum vegna upplýsinga í skránni skal beina til rekstur@landlaeknir.is.

Frekari upplýsingar:
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is