Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vikur 51 og 52 2024

2. janúar 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 52 (23.–29. desember 2024).

Mynd. Mælaborð um öndunarfærasýkingar

Inflúensa, RS veirusýking og COVID-19

Inflúensa sækir í sig veðrið í síðustu viku ársins 2024. Samtals 65 einstaklingar greindust, sem eru helmingi fleiri en vikuna á undan. Af þeim voru 38 með inflúensutegund A(pdm09), 26 með tegund A(H3) og einn með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en 19 einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og níu voru yngri en fimm ára.

Inflúensa hefur tekið við af RS veirusýkingu sem algengasta ástæða einangrunar vegna öndunarfæraveira á Landspítala. Í viku 52 voru 22 inniliggjandi með inflúensu, af þeim voru átta í aldurshópnum 65 ára og eldri en tveir yngri en 5 ára. Auk þessara 22 einstaklinga sem voru inniliggjandi komu 24 einstaklingar á bráðamóttökur og dvöldu þar í lengri eða skemmri tíma.

Aðeins færri greindust með RS veirusýkingu í viku 52 en vikurnar á undan, eða 70 einstaklingar. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en 26 voru yngri en eins árs, níu voru á aldrinum 1–2 ára og 16 voru á aldrinum 65 ára og eldri. Einnig lágu heldur færri inni á Landspítala með RS veirusýkingu en vikurnar á undan, eða 16 einstaklingar, þar af þrjú börn undir eins árs aldri, tvö á aldrinum 1–5 ára og fimm einstaklingar 65 ára eða eldri.

Í viku 52 greindust átta einstaklingar með COVID-19. Sex einstaklingar voru inniliggjandi á Landspítala með COVID-19 þessa viku, fjórir 65 ára eða eldri en tveir á aldrinum 15–64 ára.

Aðrar öndunarfærasýkingar

Af öðrum öndunarfæraveirum greindust flestir með aðrar kórónuveirur (heldur en SARS-CoV-2), og rhinoveiru. Fáir greindust með enteroveiru, adenoveiru eða aðrar veirur sem geta valdið öndunarfærasýkingum.

Öndunarfærasýnum sem fara í veirugreiningu í viku hverri hefur fjölgað undanfarnar vikur en 317 sýni voru greind í viku 52. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna var 57% í vikunni en fór yfir 60% í viku 51.

Vikulegur fjöldi klínískra Mycoplasma bakteríusýkinga (greiningar lækna óháð rannsóknarniðurstöðu) hefur sveiflast á milli vikna en í viku 52 greindust fimm einstaklingar. Enginn greindist með kíghósta.

Staðan í Evrópu (vika 51 2024)

  • Greiningum á RS veirusýkingu og inflúensu heldur áfram að fjölga í ríkjum ESB/EES en tíðni þeirra er þó í samræmi við það sem við má búast á þessum árstíma.

  • Einstaklingar 65 ára og eldri eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna árlegrar inflúensu þó innlagnir sjáist hjá öllum aldurshópum.

  • Meirihluti inniliggjandi á sjúkrahúsum með RS veirusýkingu eru börn tveggja ára eða yngri en 13% einstaklinga eru 65 ára og eldri.

  • Tíðni SARS-CoV-2 sýkinga (COVID-19) er almennt minni en var sl. sumar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á sjúkrahúsinnlögn og alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Búast má við áframhaldandi aukningu inflúensu næstu vikur og hugsanlega RS veirusýkingum einnig. Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Bólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru enn í boði og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þessir hópar eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum bæði vegna COVID-19 og inflúensu.

Við minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir