Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 48 2024

5. desember 2024

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 48 (25. nóvember–1. desember 2024).

Mynd. Mælaborð um öndunarfærasýkingar

Staðan á Íslandi

RS veirusýkingar stefna áfram upp á við en 45 einstaklingar greindust í viku 48, meirihluti þeirra tveggja ára eða yngri. 14 einstaklingar lágu inni á Landspítala með RS veirusýkingu, þar af 10 börn á aldrinum tveggja ára eða yngri.

Inflúensugreiningum fjölgaði milli vikna en 11 einstaklingar greindust í viku 48, níu með inflúensutegund A(H3) og tveir með tegund A(pdm09). Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum. Einn í aldurshópnum 65 ára og eldri lá á Landspítala með inflúensu.

Í viku 48 greindust 10 einstaklingar COVID-19. Meirihluti þeirra var í aldurshópnum 15-64 ára. Sex lágu inni á Landspítala þessa viku.

Tæpur helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en COVID-19, inflúensu eða RS veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fór í veirugreiningu hefur aukist á undanförnum vikum. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hækkar enn og var tæp 47% í viku 48.

Áfram greinast fleiri með Mycoplasma í viku hverri samanborið við sama tíma undanfarna vetur, en greiningum á Mycoplasma fór fjölgandi í upphafi þessa árs. Greiningum á kíghósta hefur fækkað frá því að faraldur braust út fyrr á þessu ári.

Staðan í Evrópu

Faraldur RS veirusýkingar er hafinn í ríkjum ESB/EES líkt og hér á landi og fer tilfellum fjölgandi. Eins og búast má við hefur sjúkdómurinn mest áhrif á börn yngri en 5 ára. Heilt yfir er tíðni COVID-19 áfram á niðurleið eftir aukningu á greiningum í sumar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19. Enn er almennt lítið um inflúensu en einhver lönd hafa tilkynnt um aukningu. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru í gangi og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þeir eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum. Þátttaka 60 ára og eldri hér á landi í bólusetningum gegn inflúensu er nú rúmlega 42%, sem er töluvert undir viðmiði.
Við minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir