Öndunarfærasýkingar – Vika 45 2024
14. nóvember 2024
Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 45 (4.–10. nóvember 2024).
RS-veirusýkingar stefna áfram upp á við en 12 einstaklingar greindust í viku 45, rúmur helmingur þeirra 2 ára eða yngri. Fimm einstaklingar lágu inni á Landspítala með RS-veirusýkingu, þar af fjögur börn á aldrinum 2 ára eða yngri.
Inflúensugreiningum fækkaði milli vikna en fimm einstaklingar greindust í viku 45, flestir með inflúensutegund A(H3). Meirihluti þeirra sem greindust var á aldrinum 15–64 ára. Einn var inniliggjandi á Landspítala með inflúensu.
COVID-19 greiningum hefur fækkað undanfarið en í viku 45 greindust átta einstaklingar, meirihlutinn í aldurshópnum 65 ára og eldri. Fjórir lágu inni á Landspítala með COVID-19.
Um helmingur sem greindist með öndunarfæraveirusýkingu, aðra en COVID-19, inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru (kvef). Fjöldi öndunarfærasýna sem fóru í veirugreiningu hefur verið stöðugur undanfarnar vikur. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna hefur þokast upp á við á haustmánuðum og var rúm 32% í viku 45.
Staðan í Evrópu
Enn er lítið um inflúensu og RS-veirusýkingu í ríkjum ESB/EES en búast má við að tíðni RS-veirusýkingar fari hækkandi á komandi vikum. Einnig er lítið um COVID-19 í samanburði við greiningar í sumar. Einstaklingar 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.
Forvarnir
Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar eru farnar af stað og eru eldri einstaklingar og aðrir áhættuhópar hvattir til þess að þiggja bólusetningu. Minnum einnig á almennar sóttvarnir, sjá upplýsingar á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir