Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar. Vika 42 2024

24. október 2024

Í viku 42 (14.–20. október) greindust 29 einstaklingar með COVID-19, annað hvort með PCR-prófi eða klínískri greiningu (greining læknis án rannsóknar), sem er sambærilegur fjöldi og greindist í vikunni á undan.

Mynd. Aukning á Covid-19 greiningum

Stöku tilfelli inflúensu og RS-veiru greindust í sumar og í byrjun hausts. Í viku 42 greindust þrír með inflúensu, allir í aldurshópnum 15–64 ára og allir með inflúensutegund A(H3). Þrír greindust með RS-veiru, allt börn á aldrinum 1–2 ára.

Í viku 42 lágu 11 einstaklingar á Landspítala með COVID-19, þar af tíu 65 ára eða eldri. Enginn lá á Landspítala með inflúensu eða RS-veiru.

Haustbólusetningar halda áfram á heilsugæslustöðvum og víðar. Sóttvarnalæknir hvetur einstaklinga í áhættuhópum til þess að þiggja bólusetningu gegn inflúensu og COVID-19.

Kíghósti

Kíghóstagreiningum hefur fækkað mikið frá því faraldur braust út í vor. Í viku 42 greindust átta einstaklingar með kíghósta, einn á aldrinum 5–14 ára, fjórir á aldrinum 15–64 ára og þrír í aldurshópnum 65 ára og eldri. Allir greindust þeir með klínískri greiningu. Enginn lagðist á Landspítala með kíghósta í viku 42 en einn var lagður inn í viku 41.

Aðrar öndunarfæraveirur

Áfram greinist mest af rhinoveiru (kvefi) af öndunarfæraveirum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Undanfarinn mánuð hefur vikulegur fjöldi rhinoveirugreininga verið á bilinu 30–40 Sjá frekari upplýsingar á vef Landspítala.

Staðan í Evrópu

Greiningar á inflúensu og RS-veiru eru í lágmarki í ríkjum ESB/EES um þessar mundir. Meira greinist af COVID-19 í samanburði við inflúensu og RS-veiru en vikulegur fjöldi tilfella af COVID-19 er þó áfram heilt yfir lægri en í sumar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19. Haustbólusetningar eru farnar af stað í mörgum löndum og eru eldri einstaklingar og aðrir áhættuhópar eru hvattir til þess að þiggja bólusetningu. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Sóttvarnalæknir