Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 4 2025

30. janúar 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 4 ársins 2025 (20.–26. janúar 2025).

Mynd. Mælaborð um öndunarfærasýkingar

Staðan á Íslandi

Inflúensan er enn í fullum gangi og forgangs- og áhættuhópar eru áfram hvattir til þess að þiggja bólusetningu. Greiningar á RS veirusýkingu stefna niður á við og áfram greinast fáir með COVID-19. Greiningar á öðrum öndunarfæraveirum jukust í síðustu viku samanborið við undangengnar vikur. Fjögur ný tilfelli kíghósta hafa greinst undanfarnar tvær vikur eftir sex vikur án greininga.

Eins og áður koma langflest sýni til rannsóknar frá spítölum en færri frá heilsugæslunni.

Inflúensa, RS veirusýking og COVID-19

Fjöldi greininga á inflúensu sveiflast áfram milli vikna. Samtals greindust 57 einstaklingar í viku 4, þar af 28 með inflúensutegund A(pdm09), 14 með tegund A(H3) og 15 með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en 15 einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og 10 voru yngri en fimm ára.

Gögn frá vikum 3 og 4 benda til aukningar á inflúensutilfellum af tegund B. Gögn frá fyrri faröldrum benda til þess að inflúensa af tegund B valdi frekar veikindum hjá börnum og unglingum en inflúensa af tegund A (sjá til dæmis veturinn 2022–2023 í mælaborðinu). Það sem af er þessum vetri er meðalaldur þeirra sem greinst hafa með inflúensu um 40 ár. Meðalaldur þeirra sem greinst hafa með inflúensu af tegund B þennan veturinn er hins vegar um 20 ár. Þetta er sambærilegt því sem verið hefur þegar gögn lengra aftur í tímann eru skoðuð.

Sex einstaklingar inniliggjandi á Landspítala voru með inflúensu í viku 4. Af þeim voru fjórir í aldurshópnum 65 ára og eldri og tveir á aldrinum 5–14 ára. Þá voru 29 einstaklingar á bráðamóttökum í lengri eða skemmri tíma með inflúensu, sem er svipaður fjöldi og undangengnar fjórar vikur.

Fjöldi greindra RS veirusýkinga í viku 4 var svipaður og í viku 3, samtals 28 einstaklingar. Þar af voru níu í aldurshópnum 65 ára og eldri, tíu voru 15–64 ára og sjö voru 2 ára eða yngri. Átta einstaklingar lágu á Landspítala með RS veirusýkingu í viku 4, þar af sex í aldurshópnum 65 ára og eldri og tvö börn undir eins árs aldri.

Í viku 4 greindust tveir einstaklingar með COVID-19. Einn lá á Landspítala með COVID-19.

Aðrar öndunarfærasýkingar

Í viku 4 jókst heildarfjöldi greindra öndunarfæraveira samanborið við fjórar vikur á undan. Hlutfallslega varð mest aukning í greiningum á rhinoveiru (kvefi) og enteroveiru. Þá hækkaði hlutfall jákvæðra sýna einng milli vikna, úr 39% í 54%.

Greiningum á Mycoplasma bakteríusýkingu (greiningum lækna óháð rannsóknarniðurstöðu) hefur fækkað undanfarið en í viku 4 greindust tveir einstaklingar. Tveir einstaklingar greindust með kíghósta í viku 4 líkt og í viku 3, einn á aldrinum 5–14 ára og hinn í aldurshópnum 65 ára og eldri.

Staðan í Evrópu

  • Talsvert er um öndunarfærasýkingar í ríkjum ESB/EES.

  • Faraldur inflúensu geisar víða en í sumum löndum benda gögn til þess að toppi faraldurs hafi verið náð. Tíðni innlagna vegna inflúensu er nú svipuð og á sama tíma undanfarna vetur en þá olli faraldurinn talsverðu álagi á heilbrigðiskerfi í mörgum ríkjum. Einstaklingar 65 ára og eldri eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna árlegrar inflúensu sem sýnir hve mikilvægar forvarnir (sérstaklega bólusetningar) eru fyrir þennan aldurshóp.

  • Tíðni RS veirusýkinga virðist heilt yfir á niðurleið í ríkjum ESB/EES þó ástandið sé misjafnt eftir ríkjum. Börn undir fimm ára aldri eru almennt í mestri hættu á alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna RS veirusýkingar.

  • Tíðni COVID-19 (SARS-CoV-2 sýkinga) er lág í flestum ríkjum ESB/EES.
    Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna inflúensu. Bóluefni er enn til hjá birgja og á heilsugæslum. Aðstandendur barna 6 mánaða til 4 ára, einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í forgangs- og áhættuhópum eru áfram hvattir til að þiggja bólusetningu en þessir hópar eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum vegna inflúensu.

Almennar sóttvarnir, við minnum á að:

  • Varast umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.

  • Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.

  • Hylja munn og nef við hósta og hnerra.

  • Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.

  • Íhuga notkun andlitsgrímu í fjölmenni.

  • Þvo hendur oft og vel.

  • Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.

Sóttvarnalæknir