Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – Vika 1 2025

9. janúar 2025

Mælaborð sóttvarnalæknis um öndunarfærasýkingar hefur verið uppfært með gögnum út viku 1 ársins 2025 (30. desember 2024 – 5. janúar 2025).

Mynd. Mælaborð um öndunarfærasýkingar

Inflúensa, RS veirusýking og COVID-19

Færri greindust með inflúensu í fyrstu viku ársins 2025 samanborið við þá síðustu á árinu 2024. Samtals greindust 35, þar af 17 með inflúensutegund A(pdm09), 15 með tegund A(H3) og þrír með inflúensutegund B. Þeir sem greindust voru í öllum aldurshópum en níu einstaklingar voru í aldurshópnum 65 ára og eldri og fimm voru yngri en fimm ára.

11 einstaklingar lágu inni á Landspítala með inflúensu í viku 1 en það eru færri samanborið við síðustu viku ársins 2024 . Þar af voru fimm í aldurshópnum 65 ára og eldri. Þá komu 23 einstaklingar á bráðamóttökur með inflúensu.

Ef tímabilið frá sumri og til loka árs 2024 (vikur 27 til 52) er borið saman við fyrri ár sést að talsvert færri inflúensur greindust á þessu tímabili á árinu 2024 samanborið við sama tímabil árin 2022 og 2023, en á þeim árum greindust óvenju margir með inflúensu. Ef árin fyrir heimsfaraldur COVID-19, til dæmis árin 2016-2019, eru skoðuð sést að faraldurinn virðist fara fyrr af stað í vetur með fleiri greiningar á tímabilinu fram að áramótum. Hafa ber þó í huga að færri sýni voru tekin fyrir heimsfaraldur sem kann að skýra mun á fjölda greininga. Á þessum árum, fyrir faraldur COVID-19, greindist meirihluti inflúensutilfella eftir áramót svo í ljós á eftir að koma hvort núverandi inflúensufaraldur verði umfangsmeiri eða hvort hann sé einfaldlega fyrr á ferðinni og tilfellum fari þá einnig fækkandi fyrr. Inflúensufaraldrar voru óvenjulegir þegar heimsfaraldur COVID-19 gekk yfir á árunum 2020-2021og því ekki með í samanburði hér. Þau gögn má þó nálgast í mælaborðinu.

Mynd með frétt um öndunarfærasýkingar, vika 1 2025

RS veirusýkingum hefur farið fækkandi undanfarnar þrjár vikur. Í viku 1 greindust 48 með RS, þar af helmingur börn undir eins árs aldri. Einstaklingum sem lágu á Landspítala með RS veirusýkingu fækkaði einnig en þeir voru 11 í viku 1, þar af átta í aldurshópnum 65 ára og eldri og tvö börn undir eins árs aldri.

Í viku 1 greindust sex einstaklingar með COVID-19. Enginn lá á Landspítala með COVID-19.

Aðrar öndunarfærasýkingar

Af öðrum öndunarfæraveirum greindust flestir með rhinoveiru (kvef) og aðrar kórónuveirur (heldur en SARS-CoV-2).

Öndunarfærasýnum sem fara í veirugreiningu fækkaði lítillega milli vikna en 295 sýni voru greind í viku 1. Hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna lækkaði einnig og var tæp 49% í vikunni.

Vikulegur fjöldi klínískra Mycoplasma bakteríusýkinga (greiningar lækna óháð rannsóknarniðurstöðu) sveiflast áfram en í viku 1 greindust fimm einstaklingar. Enginn greindist með kíghósta.

Staðan í Evrópu

  • Greiningum á RS veirusýkingu og inflúensu heldur áfram að fjölga í ríkjum ESB/EES og faraldur inflúensu geisar víðsvegar um svæðið en tíðni sýkinga er í samræmi við það sem við má búast á þessum árstíma.

  • Einstaklingar 65 ára og eldri eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum og innlögnum á sjúkrahús vegna árlegrar inflúensu þó innlagnir sjáist hjá öllum aldurshópum.

  • Meirihluti inniliggjandi á sjúkrahúsum með RS veirusýkingu eru börn tveggja ára eða yngri (19% undir 6 mánaða aldri) en 13% einstaklinga eru 65 ára og eldri.

  • Tíðni COVID-19 (SARS-CoV-2 sýkinga) er almennt minni en var sl. sumar. Einstaklingar í aldurshópnum 65 ára og eldri eru áfram í mestri hættu á sjúkrahúsinnlögn og alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Búast má við áframhaldandi inflúensu og RS veirusýkingum næstu vikur. Bólusetningar eru áhrifaríkasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Bólusetningar vegna COVID-19 og inflúensu eru enn í boði og einstaklingar eldri en 60 ára og aðrir einstaklingar í áhættuhópum eru hvattir til að þiggja bólusetningu en þessir hópar eru í mestri hættu á alvarlegum veikindum bæði vegna COVID-19 og inflúensu. Þátttaka í bólusetningum hefur verið undir væntingum en þátttaka 60 ára og eldri í bólusetningum gegn inflúensu það sem af er þessum vetri er nú um 45%.

Almennar sóttvarnir, við minnum á að:

  • Varast umgengni við aðra sem eru með einkenni sýkingar.

  • Vera heima á meðan þú hefur einkenni og þangað til vel á batavegi og hitalaus í sólarhring.

  • Hylja munn og nef við hósta og hnerra.

  • Sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga ef þú ert með einkenni sýkingar.

  • Íhuga notkun andlitsgrímu í fjölmenni.

  • Þvo hendur oft og vel.

  • Þrífa sameiginlega snertifleti og lofta út í sameiginlegum rýmum eins og hægt er.

    Sóttvarnalæknir