Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Öndunarfærasýkingar – nýtt mælaborð sóttvarnalæknis

31. október 2024

Sóttvarnalæknir hefur nú birt gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um greiningar öndunarfærasýkinga.

EL. Mynd með frétt um mælaborð öndunarfærasýkinga

Mælaborðið byggir á öllum greiningum á skráningarskyldum öndunarfæraveirusýkingum á sýkla- og veirufræðideild Landspítala auk COVID-19 frá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Mælaborðið sýnir einnig fjölda einstaklinga sem eru inniliggjandi á Landspítala og greinast með öndunarfærasýkingu í viku hverri. Þau gögn koma frá sýkingavarnadeild Landspítala.

Tilgangurinn með mælaborðinu er að bæta aðgengi að tölulegum upplýsingum um öndunarfærasýkingar yfir vetrartímann með áherslu á þær sýkingar sem eru algengastar eða valda hvað mestum veikindum. Fyrirhugað er að uppfæra mælaborðið á 1-2 vikna fresti á tímabilinu.

Vika 43 (21. – 27. október 2024)

Mælaborðið sýnir nú gögn út viku 43. Svipaður fjöldi greindist með COVID-19 í viku 43 og vikurnar á undan. Inflúensa stefnir upp á við, sem er viðbúið fyrir þennan tíma árs. Fáir greinast með RS-veirusýkingu um þessar mundir. Tæpur helmingur sem greindist með öndunarfæraveiru, aðra en SARS-CoV-2 (COVID-19), inflúensu eða RS-veirusýkingu, greindist með rhinoveiru. Þá greindist meira af kórónuveirum öðrum en SARS-CoV-2 samanborið við undangengnar vikur.

Staðan í Evrópu

Enn er lítið um inflúensu og RS-veirusýkingu í ríkjum ESB/EES. Miðað við gögn frá fyrri flensutímabilum má þó búast við að tíðni inflúensu og RS-veirusýkingar fari hækkandi á komandi vikum. Enn er minna um COVID-19 í samanburði við greiningar í sumar. Sjá frekari upplýsingar á vef Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins.

Forvarnir

Bólusetningar eru áhrifaríkjasta vörnin gegn alvarlegum veikindum vegna öndunarfæraveirusýkinga. Haustbólusetningar eru farnar af stað í mörgum löndum og eru eldri einstaklingar og aðrir áhættuhópar hvattir til þess að þiggja bólusetningu.

Sóttvarnalæknir