Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Ný fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu í heilbrigðisþjónustu

25. nóvember 2024

Heilbrigðisráðherra hefur staðfest ný fyrirmæli landlæknis um lágmarksskráningu í heilbrigðisþjónustu en þau voru birt á vef Stjórnartíðinda í lok október.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Í þessari útgáfu eru fyrri fyrirmæli, sem annars vegar voru fyrir sjúkrahús og hins vegar fyrir heilsugæslu og læknastofur, sameinuð í ein fyrirmæli sem gilda frá 1. október 2024. Lagt var upp með að halda í megingildi fyrri fyrirmæla, það er að krefjast ekki óþarfa skráningar, halda í einfaldleika skráningar og nota eftir fremsta megni kóðaðar upplýsingar. Þá var horft til þess að hafa breytingar á starfsemi heilbrigðisþjónustunnar til hliðsjónar, svo sem breytingar á lögum, aukna rafræna skráningu, rafrænar gagnasendingar og aukna nýtingu gagna í heilbrigðisskrám.

Vinna við endurskoðun fyrirmælanna hófst árið 2021 og komu fjölmargir að henni frá Landssambandi heilbrigðisstofnana, Samtökum heilbrigðisfyrirtækja, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Sjúkrahúsinu á Vogi, Reykjalundi og Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Er öllum hér með þakkað fyrir mikla og góða vinnu.

Nýju fyrirmælin gilda um lágmarksskráningu heilbrigðisupplýsinga í fyrsta, annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu. Þau skilgreina eingöngu lágmarksskráningu og stöðlun hennar en skráning í sjúkraskrá í tengslum við samskipti einstaklinga við heilbrigðisþjónustu er jafnan ítarlegri.

Aðlaga þarf rafræn skráningarkerfi í heilbrigðisþjónustu að þessum nýju fyrirmælum, bæði hvað varðar skráningaratriði og stöðlun, þannig að þau uppfylli þær kröfur sem gerðar eru. Rekstraraðilar í heilbrigðisþjónustu fá tvö ár frá útgáfu fyrirmælanna til þess að aðlaga kerfi sín þessum fyrirmælum.

Embætti landlæknis mun á næstu mánuðum kynna helstu hagsmunaaðilum nýju fyrirmælin um lágmarksskráningu í heilbrigðisþjónustu.

Frekari upplýsingar
Arna Harðardóttir, verkefnastjóri
arna.hardardottir@landlaeknir.is