Mislingar á Íslandi – í kjölfar nýlegs tilfellis
12. janúar 2026
Í framhaldi af frétt embættis landlæknis 8. janúar síðastliðinn um að mislingar hefðu greinst hjá barni á Íslandi vill sóttvarnalæknir veita almenningi nánari upplýsingar um stöðu mála, áhættu og bólusetningar.

Mynd 1. Mislingar á Íslandi 1888−2015
Engin ný tilfelli hafa greinst frá því að umrætt tilfelli var staðfest. Allir hérlendis sem taldir voru hafa verið útsettir fyrir smiti, þar á meðal einstaklingar sem voru samtímis hinum veika á Landspítala og í flugi til landsins, voru boðaðir í bólusetningu þann 8. janúar eða settir í viðeigandi eftirfylgd af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Meðgöngutími mislinga er yfirleitt 7–14 dagar en getur verið allt að 21 dagur, og því stendur vöktun yfir þar til sá tími er liðinn.
Mislingar – saga og staða á Íslandi
Mislingar eru bráðsmitandi og voru áður einn skæðasti smitsjúkdómur barna á Íslandi. Eftir að skipulagðar bólusetningar hófust árið 1976 og MMR-bóluefni (mislingar, hettusótt og rauðir hundar) var tekið upp árið 1989 fjaraði sjúkdómurinn út og hvarf hérlendis árið 1996 (Mynd 1). Frá þeim tíma hafa aðeins greinst stök tilfelli eða litlar hrinur, yfirleitt tengdar innflutningi smits frá útlöndum.
Stærsta atvikið síðustu ár var árið 2019 þegar níu einstaklingar greindust með mislinga, þar af sex í hópsýkingu sem rekja mátti til óbólusetts ferðalangs. Þá var gripið til umfangsmikilla aðgerða, þar á meðal bólusetningar á um 6.800 einstaklingum, og tókst að stöðva útbreiðslu.
Á tímum COVID-19 faraldursins á árunum 2020−2023 greindist ekkert tilfelli mislinga á Íslandi. Árið 2024 komu hins vegar upp tvö stök tilfelli, annars vegar í febrúar og hins vegar í apríl, bæði hjá fullorðnum einstaklingum sem smituðust erlendis. Í hvorugu tilvikinu varð vart við áframhaldandi smit.
Bólusetningarstaða á Íslandi
Íslensk bólusetningaráætlun gegn mislingum byggir á tveimur skömmtum af MMR-bóluefni:
fyrsti skammtur við 18 mánaða aldur,
seinni skammtur við 12 ára aldur.
Til að viðhalda hjarðónæmi gegn mislingum þarf þátttaka helst að vera yfir 95% í báðum skömmtum.
Samkvæmt nýjusta uppgjöri almennra barnabólusetninga fyrir árið 2024 er staðan á Íslandi almennt góð hjá yngri börnum, en ekki eins góð hjá eldri börnum og unglingum:
18 mánaða börn (fæðingarárgangur 2022): 95% bólusett á landsvísu,
12 ára börn (fæðingarárgangur 2012): 89% bólusett á landsvísu.
Á höfuðborgarsvæðinu var skráð þátttaka 94% hjá 18 mánaða börnum árið 2024 en 87% hjá 12 ára börnum. Á sumum landsvæðum er þátttaka í seinni skammti undir 90%, sem er undir því marki sem þarf til að tryggja fullnægjandi vernd samfélagsins. Þátttaka undir 90% á landsvísu eykur líkur á að mislingar geti náð fótfestu ef smit berst til landsins.
Staðan á smitum í Evrópu og heiminum
Mislingum hefur fjölgað í Evrópu og víðar eftir COVID-19 faraldurinn. Frá september 2023 til ágúst 2024 voru tilkynnt 138.740 mislingatilfelli í Evrópu, þar af 96% í aðeins tíu ríkjum, meðal annars Bretlandi, Rúmeníu, Tyrklandi og Rússlandi (Myndir 2 og 3).

Mynd 2. Mislingatilfelli á svæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin í Evrópu, september 2023–ágúst 2024

Mynd 3. Tíðni mislinga á hverja milljón íbúa á svæði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin í Evrópu, september 2023–ágúst 2024
Á heimsvísu er mislingum enn langt frá því að vera útrýmt. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) var árið 2024 áætlað að um 11 milljónir manna hefðu veikst af mislingum og um 95.000 látist. WHO bendir sérstaklega á að mislingar séu að snúa aftur í mörgum ríkum löndum þar sem bólusetningarþátttaka hefur staðið í stað eða dalað. Þrátt fyrir fjölgun tilfella undanfarið áætlar WHO að mislingabólusetningar hafi komið í veg fyrir um 59 milljón dauðsföll frá árinu 2000.
Á heimsvísu er bólusetningarþátttaka gegn mislingum enn undir því marki sem þarf til að viðhalda hjarðónæmi, en árið 2024 höfðu að jafnaði aðeins 84% barna fengið fyrsta skammt bóluefnisins. WHO varar við að án aukinnar fjárfestingar í bólusetningum, vöktun og viðbragðskerfum muni hætta á alvarlegum faröldrum aukast enn frekar á komandi árum.
Ábendingar til almennings
Sóttvarnalæknir hvetur alla sem eru fæddir á árunum 1975–1987, eða eru óvissir um hvort þeir hafi fengið tvo skammta af MMR-bóluefni (sjá Mínar síður á heilsuvera.is) að kanna stöðu sína hjá heilsugæslunni og fá uppbótarbólusetningu ef þörf er á vegna ferðalaga erlendis.
Börn má bólusetja gegn mislingum frá 6 mánaða aldri ef sérstök hætta er á smiti, meðal annars vegna ferðalaga á svæði þar sem mislingar eru í dreifingu, þó að slíkur skammtur teljist viðbót og þurfi að fylgja eftir með hefðbundinni bólusetningaáætlun síðar.
Horfur
Með almennt háu bólusetningarhlutfalli, skjótum viðbrögðum og áframhaldandi vöktun eru horfur á að umrætt tilfelli 8. janúar leiði ekki til frekari útbreiðslu. Reynslan sýnir þó að innflutt smit geta ávallt borist til landsins svo lengi sem mislingar ganga í heiminum.
Bestu varnirnar gegn mislingum eru og verða full bólusetning.
Sóttvarnalæknir