Lýðheilsuvísar 2024 kynntir
25. september 2024
Svæðisbundnir lýðheilsuvísar 2024 voru kynntir í níunda sinn þann 20. september síðastliðinn.
Að þessu sinni fór kynningin fram í Grindavík. Í brennidepli voru þær áskoranir sem Grindvíkingar standa frammi fyrir í lýðheilsumálum í kjölfar jarðhræringa og rýmingar bæjarins.
Í upphafi fundar flutti Eggert S. Jónsson, sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar, ávarp. Hann sagði bjartsýni ríkja um uppbyggingu bæjarins en starfsfólk í heilbrigðiskerfinu þyrfti að vera undir það búið að taka á móti Grindvíkingum með fjölþætt heilsufarsvandamál næstu árin. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélagið héldi áfram að styðja við Grindvíkinga þótt þeir væru fluttir annað.
Alma D. Möller, landlæknir, fjallaði í framhaldinu um lýðheilsuvísa og hvernig nýta má gögn í heilbrigðisskrám embættisins til vöktunar á heilsu og líðan fólks þegar áföll dynja yfir.
Því næst fjölluðu Sigríður Haraldsd. Elínardóttir og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjórar hjá embætti landlæknis, um útgefna lýðheilsuvísa 2024. Sigríður um vísa tengda samfélaginu, heilsu og sjúkdómum og Dóra um vísa tengda lifnaðarháttum og líðan.
Að lokum sagði Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, frá því hvernig HSS hefur hagnýtt lýðheilsuvísa við skipulag starfsemi sinnar.
Fundarstjóri var Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis.
Upptaka - kynning á lýðheilsuvísum 2024
Glærur - kynning á lýðheilsuvísum 2024
Árlegar kynningar á lýðheilsuvísum - meðal annars umfjöllun um útgáfuna 2024
Mælaborð lýðheilsuvísa