Fara beint í efnið

Heilræði á óvissutímum

22. nóvember 2023

Óvissa getur verið erfið og þá ekki síst ef slíkt ástand varir lengi og óljóst hvenær það tekur enda. Eftirfarandi heilræði byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til þess að hlúa að líðan okkar.

Að hlúa vel að okkur sjálfum og okkar nánustu

Óvissa getur verið erfið og þá ekki síst ef slíkt ástand varir lengi og óljóst hvenær það tekur enda. Í því ástandi sem ríkir núna og Grindvíkingar búa við er viðbúið og eðlilegt að alls konar tilfinningar vakni. Viðbrögð fólks við aðstæðunum geta verið margvísleg. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir líðan sinni og annarra, sýna sjálfsmildi og leita hjálpar þegar við á. Börn geta upplifað erfiða tíma og atvik á annan hátt en fullorðnir. Því er mikilvægt að hlusta á þau og vera vakandi fyrir líðan þeirra, leyfa þeim að spyrja og svara þeim eftir bestu getu. Margir þættir hafa áhrif á andlega, líkamlega og félagslega vellíðan okkar. Hjálplegt getur verið að hafa þessa þætti í huga þegar óvissa ríkir og dagleg rútína fer úr skorðum. Eftirfarandi heilræði byggja á niðurstöðum rannsókna á því hvað er gagnlegt að gera til þess að hlúa að líðan okkar. Texti á pólsku.

Að hlúa vel að okkur sjálfum og okkar nánustu

Hugsum vel um okkur sjálf og deilum líðan með okkar nánustu. Leitumst við að finna uppbyggilegar leiðir til að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Gott er að verja tíma með þeim sem okkur þykir vænt um og t.d. spila, fara út í göngutúr, föndra, lesa og skoða þá tómstundamöguleika sem í boði eru.

Góðar matarvenjur

Matarlyst getur minnkað við erfiðar aðstæður og því er mikilvægt að reyna að halda reglu á máltíðum eins og hægt er. Veljum hollan og fjölbreyttan mat sem er ríkur af næringarefnum frá náttúrunnar hendi, svo sem grænmeti, ávexti, ber, heilkornavörur, fisk og tökum D-vítamín sem bætiefni.

Regluleg hreyfing

Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir andlega og líkamlega vellíðan, betri svefn og aukið þrek. Ganga og hvers konar útivera er frábær leið til að hlúa að líkama og sál. Betra er að hreyfa sig lítið eitt fremur en ekki neitt og að takmarka langvarandi kyrrsetu.

Að viðhalda svefnrútínu

Á óvissutímum er eðlilegt að fólk geti átt erfitt með svefn og áskorun getur verið að viðhalda góðum svefnvenjum. Góður svefn hefur jákvæð áhrif á líðan okkar og hjálpar okkur að takast á við viðfangsefni dagsins. Rólegar kvöldvenjur, slökun, dauf lýsing og takmörkun á koffíninntöku og skjátíma að kvöldi getur stuðlað að betri svefni.

Forðumst að nota áfengi, tóbak og aðra vímugjafa sem bjargráð

Það er ekki gagnlegt að nota áfengi og reykingar til að takast á við erfiðar tilfinningar, eins og áhyggjur og kvíða, eða til að slaka á. Neysla áfengis og reykingar veikja ónæmiskerfið auk þess að hafa neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan til lengri tíma.

Hugsanir hafa áhrif á líðan

Það sem við hugsum hefur áhrif á það hvernig okkur líður. Að stunda núvitund og slökun getur verið góð leið til að draga úr streitu og kvíða. Einnig getur hjálpað að veita því góða í lífi okkar athygli, til dæmis með því að rifja upp þrjú atriði til að þakka fyrir á hverjum degi, við matarborðið eða áður en farið er að sofa.

Góðvild og samkennd

Að sjá okkur sjálf sem hluta af stærra samhengi og viðhalda góðri tengingu við aðra hjálpar okkur að takast á við erfiðar aðstæður. Verum óhrædd við að þiggja stuðning frá öðrum og bjóða fram krafta okkar ef við höfum tök á.

Í óvissuástandi er eðlilegt að hafa áhyggjur, en ef áhyggjur eru orðnar óhóflegar og farnar að stjórna lífi fólks og valda til dæmis mikilli vanlíðan, kvíða eða svefnvanda er mikilvægt að leita aðstoðar. Aðstoð er meðal annars að finna á eftirfarandi stöðum:

  • Við alvarlegum og bráðum vanda: Bráðamóttaka geðþjónustu LSH

  • Þjónustumiðstöð almannavarna í Tollhúsinu, Tryggvagötu 19 í Reykjavík, opið virka daga frá kl. 10-18, sálrænn stuðningur í boði.

  • Símaráðgjöf Heilsuveru – Sími 5131700. Opið alla daga frá kl. 8-22.

  • Netspjall Heilsuveru – Opið alla daga frá kl. 8-22.

  • Læknavaktin – vaktsími 1700 opinn allan sólarhringinn

  • Hjálparsími Rauða Krossins 1717 – opinn allan sólarhringinn

  • Netspjall Rauða Krossins – 1717.is (íslenska, enska,

  • pólska)

  • Þjóðkirkjan býður upp á sálgæslu presta og hægt er að óska eftir þeirri þjónustu í netfanginu afallahjalp@kirkjan.is

  • Heilsugæslustöðvar

Á Heilsuveru má finna nánari upplýsingar og ráð um líðan og hvernig hægt er að vinna með ofangreinda þætti: