Forvörn gegn RS veiru tekin í almenna notkun fyrir ungbörn í fyrsta sinn á Íslandi
5. september 2025
Frá og með október hefst gjöf nirsevimab (Beyfortus®) til allra ungbarna undir sex mánaða aldri hér á landi. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á almenna forvörn gegn RS-veirusýkingum fyrir öll ungbörn á Íslandi.

Mótefnið verður gefið á sjúkrastofnunum þar sem fara fram fæðingar eða 5 daga skoðun, sem og í ungbarnavernd á heilsugæslum. Eldri börn í áhættuhópum geta einnig fengið mótefnið á sjúkrahúsum eða heilsugæslum.
Af hverju skiptir þetta máli?
RS-veiran er algeng orsök öndunarfærasýkinga, sem leggst sérstaklega þungt á börn á fyrsta aldursári, og veldur árlega fjölda innlagna á sjúkrahús hérlendis og erlendis. Í alvarlegum tilvikum þurfa börn að leggjast inn á gjörgæslu og fá öndunarvélarstuðning.
Á síðustu árum hefur innlögnum barna á fyrsta aldursári fjölgað hér á landi og hvert ár koma upp tilfelli þar sem börn veikjast mjög alvarlega. RS-sýkingar geta einnig leitt til bakteríusýkinga eins og lungnabólgu sem krefst sýklalyfjameðferðar.
Hvernig virkar nirsevimab?
Nirsevimab er einstofna mótefni, ekki hefðbundið bóluefni. Það veitir börnunum vörn strax við gjöf, án þess að ónæmiskerfið þurfi að bregðast við. Vörnin endist í um sex mánuði sem nær yfir allt RS-tímabilið.
Áður var palivizumab (Synagis®) í boði fyrir fyrirbura og börn með sérstaka áhættuþætti, en það þurfti að gefa endurtekið á meðan RS-faraldur var í gangi. Nirsevimab er langvinnara og aðeins þarf eina gjöf á RS-tímabilinu, auk þess sem það verður í boði fyrir öll ungbörn. Nærri 30 ára reynsla er af notkun palivizumab og annarra einstofna mótefna.
Reynslan erlendis
Mótefnið hefur þegar verið notað síðastliðna tvo vetur í fjölda Evrópuríkja, auk annarra landa, og reynslan er mjög góð. Notkun þess fyrir ungbörn er studd af samtökum barnalækna í Evrópu sem og Norður- og Suður Ameríku. Rannsóknir sýna um 80% fækkun innlagna á sjúkrahús og einnig færri tilfelli bakteríusýkinga, sem oft fylgja í kjölfar RS-veirusýkingar.
Ávinningurinn á Íslandi
Ef árangurinn hérlendis verður sambærilegur og í nágrannaríkjum má búast við:
Færri en 300 börn leiti árlega til læknis vegna RS-veirusýkingar, í stað um eða yfir 500 börn.
Um 10–15 sjúkrahúsinnlagnir í stað um 40 innlagna.
30 sjúkrahúslegudagar í stað 180 daga.
Þannig er áætlað að gjöf mótefnisins muni minnka veikindi barna, draga úr álagi á heilbrigðiskerfið, vonandi minni lyfjanotkun og áhyggjum foreldra auk fjarveru þeirra frá vinnu.
Öryggi
Aukaverkanir eru yfirleitt vægar og tímabundnar, svo sem hiti, roði eða eymsli á stungustað. Alvarleg ofnæmisviðbrögð eru mjög sjaldgæf. Áhættan af RS-veirusýkingu er margfalt meiri en áhættan af mótefninu.
Mikilvægt að taka þátt
Til að ná sem mestum árangri þarf þátttöku sem flestra ungbarna undir sex mánaða aldri við upphaf RS-tímabils. Þar sem mótefnið veitir einstaklingsbundna vörn, en ekki hjarðónæmi, skiptir þátttaka hvers barns miklu máli.
Nánari upplýsingar um RS-veiru og mótefnagjöfina er að finna á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnlæknir
Valdar ritrýndar greinar:
Oskarsson Y, Haraldsson A, Oddsdottir BHI, Asgeirsdottir TL, Thors V. Clinical and Socioeconomic Burden of Respiratory Syncytial Virus in Iceland. Pediatric Infectious Disease Journal 2022;41(10):800-805.
Alberto V, Vittucci AC, Antilici L, Pisani M, Scutari R, Di Maio VC, Musolino AMC, Cristaldi S, Cutrera R, Perno CF. Prevention of RSV Bronchiolitis: An Ethical Issue. The Pediatric Infectious Disease Journal 2024; 43(8):e296-e297.
Position Statement: Respiratory syncytial virus (RSV) prevention strategies for the 2024-2025 viral respiratory illness season. The Canadian Paediatric Society. Posted: Nov 6, 2024.
Debbag R, Ávila-Agüero ML, Brea J, Brenes-Chacon H, Colomé M, de Antonio R, Díaz-Díaz A, Falleiros-Arlant LH, Fernández G, Gentile A, Gutiérrez IF, Jarovsky D, Del Valle Juárez M, López-Medina E, Mascareñas A, Ospina-Henao S, Safadi MA, Sáez-Llorens X, Soriano-Fallas A, Torres JP, Torres-Martínez CN, Beltrán-Arroyave C. Confronting the challenge: a regional perspective by the Latin American pediatric infectious diseases society (SLIPE) expert group on respiratory syncytial virus-tackling the burden of disease and implementing preventive solutions. Frontiers in Pediatrics. 2024;12:1386082.