Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Eldgos á Reykjanesi og heilsufarsleg áhrif

22. mars 2024

Nokkur mengun hefur verið frá eldgosinu við Sundhnúksgíga á Reykjanesi síðustu daga, sem hefur meðal annars mælst á loftgæðamælum Umhverfisstofnunnar.

Mynd. Eldgos á Reykjanesi í mars 2024

Gasmengun frá eldgosinu er fyrst og fremst í formi brennisteinsdíoxíðs (SO2)en gasið kemur bæði frá gosmekkinum sem og nýju hrauni á svæðinu. Þá má búast við mengun af völdum svokallaðrar gosmóðu (e. volcanic smog) í tengslum við eldgosið. Gosmóða er líka kölluð blámóða vegna einkennandi blágrás litar.

Gasdreifingarspá og loftgæði

Almenningur, sérstaklega á SV-hluta landsins, er hvattur til að kynna sér reglulega gasdreifingarspá Veðurstofu Íslands og fylgjast með mælingum á gasmengun og svifryki á vef Umhverfisstofnunnar, loftgaedi.is.

Sóttvarnalæknir vill vekja athygli á fræðslubæklingi um hugsanlega hættu á heilsutjóni vegna loftmengunar í nágrenni eldstöðva. Bæklingurinn var unnin í sameiningu af ýmsum stofnunum og félagasamtökum en í honum eru áhrif loftmengunar á heilsufar manna útskýrðar og þar má finna upplýsingar um hvernig helst má verja sig gegn loftmengun vegna eldgosa.

Hættulegar lofttegundir

Frá eldgosi koma ýmiss konar mengunarefni bæði í gasfasa og á föstu formi. Algengast er brennisteinsdíoxíð (SO2). Brennisteinsdíoxíð er litarlaust en hefur svipaða lykt og frá flugeldum. Sum önnur gös er hins vegar lyktarlaus en hættuleg (koltvísýringur og kolmónoxíð). Þau er einkum að finna í nálægð við eldgosið.

Gosmóða er loftmengun sem verður til þegar að brennisteinsdíoxíð (SO2), önnur gös og agnir hvarfast við súrefni og raka í andrúmsloftinu með tilstuðlan sólarljóssins. Við þetta umbreytist brennisteinsdíoxíð (SO2) í súlfat (SO4). Mengun vegna gosmóðu er ekki greinanleg á venjulegum loftgæðamælum sem mæla brennisteinsdíoxíð. Til að meta hvort gosmóða sé til staðar er best að fylgjast með mælingum á PM1, sem er mjög fínt svifryk. Gosmóðan er meira ertandi en t.d. svifryk sem kemur vegna bílaumferðar.

Á vef Umhverfisstofnunar, loftgaedi.is eru birtar rauntímamælingar á loftgæðum og mengun, bæði af völdum brennisteinsdíoxíðs og svifryks. Niðurstöður mælinganna eru einfaldaðar og litakóðaðar og á síðunni má jafnframt finna töflu með hagnýtum leiðbeiningum um hvernig bregðast skal við hækkuðum gildum brennisteinsdíoxíðs og versnandi loftgæðum.

Gosmóða og brennisteinsdíoxíð geta valdið sleni, höfuðverk, ertingu í augum og hálsi auk annarra einkenna frá öndunarfærum. Minnstu svifryksagnir (PM 1 og 2,5) eru hættulegar heilsunni þar sem þær eiga auðvelt með að ná djúpt niður í lungun. Börn og einstaklingar sem eru með undirliggjandi hjarta- og lungnasjúkdóma ættu að forðast útivist í lengri tíma sem og áreynslu utandyra, þar sem er loftmengun, og hafa glugga lokaða.

Sóttvarnalæknir