Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Efling félags- og tilfinningafærni í skólum: Samstarf Embættis landlæknis og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

5. desember 2025

Embætti landlæknis og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa gert með sér samkomulag um aukið samstarf við útgáfu námsefnis á sviði félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna í skólastarfi.

Tilefni samkomulagsins er áhersla á eflingu félags- og tilfinningafærni í aðgerðaáætlun stjórnvalda til að fækka sjálfsvígum á Íslandi sem var kynnt í mars á þessu ári. Einn af áhersluþáttum alþjóðlegra sjálfsvígsforvarna er að efla félags- og tilfinningafærni barna og unglinga svo þau öðlist seiglu og færni til að takast á við áskoranir lífsins. Í íslensku aðgerðaáætluninni er þessi þáttur tilgreindur í aðgerð um forvarnir og heilsueflingarstarf sem kveður á um að koma á formlegu samstarfi Embættis landlæknis og Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á þessu sviði.

Markmið um að byggja markvisst upp félags- og tilfinningafærni barna og ungmenna er ekki aðeins liður í sjálfsvígsforvörnum heldur einnig í geðheilbrigðisstefnu og menntastefnu stjórnvalda til 2030. Í aðgerðaáætlun við geðheilbrigðisstefnu er kveðið á um innleiðingu gagnreyndrar nálgunar í geðrækt í grunnskólum og í aðgerðaáætlun við menntastefnu er lögð aukin áhersla á geðrækt og félags- og tilfinningafærni bæði í skólastarfi og í námi og starfsþróun kennara.

Embætti landlæknis og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa um árabil átt í farsælu samstarfi um lífsleiknikennslu og félags- og tilfinningafærni í skólum. Milli þeirra hafa myndast góð tengsl og traust sem hefur nýst báðum vel í vinnu með skólum landsins. Með nýja samkomulaginu er hins vegar stigið skref í átt að formlegra og markvissara samstarfi þannig að þekking beggja stofnana á þessu sviði nýtist sem best í þágu skólastarfs í landinu.

Það er von beggja að með þessu skapist grunnur fyrir vandaða kennslu í félags- og tilfinningafærni í íslenskum skólum sem styður samhliða við aukin gæði skólastarfs og bætta líðan barna og ungmenna til framtíðar.

Frekari upplýsingar
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar, sigrun.danielsdottir@landlaeknir.is
Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri sjálfsvígsforvarna, gudrun.j.gudlaugsdottir@landlaeknir.is