Fara beint í efnið

Dagur án tóbaks 2024. Verndum börn fyrir áhrifum frá tóbaksiðnaðinum

31. maí 2024

Á Degi án tóbaks 2024 er athyglinni beint að tilburðum tóbaksiðnaðarins til að ná til ungs fólks með markaðssetningu á tóbaki og nikótínvörum, meðal annars á samfélagsmiðlum og streymisveitum.

Mynd. The Tobacco industry is targeting a new generation

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin velur þema fyrir Dag án tóbaks – 31. maí ár hvert. Í ár er dagurinn tileinkaður því að börn og ungt fólk sé varið fyrir þeim áhrifum sem tóbaksiðnaðurinn beitir til að ná í nýja neytendur með nýjum vörutegundum sem síðan tryggir iðnaðinum framtíðartekjur. Kallað er eftir stefnumótun stjórnvalda sem getur varið börn og ungmenni gegn markvissum aðferðum tóbaksiðnaðarins til að ná í nýja neytendur.

Ung fólk og rafrettur

Á heimsvísu er notkun á rafrettum meiri meðal ungs fólks heldur en fullorðinna. Í Kanada tvöfaldaðist notkun á rafrettum í aldurshópnum 16 til 19 ára á milli áranna 2017-2022 og á Bretlandi þrefaldaðist rafrettunotkun ungmenna á þremur árum. Á Íslandi hefur notkun á rafrettum einnig verið algengust á meðal ungs fólks. Dagleg notkun hér á landi hefur verið stöðug undanfarin ár, um 7% í aldurshópnum 18-34 ára.

Auglýsingar og samfélagsmiðlar

Fjölmargir áhrifavaldar auglýsa rafrettur með yfir 16.000 bragðtegundum á samfélagsmiðlum. Sumar vörutegundir nota flottar teiknimyndafígúrur sem höfða beint til barna og ungmenna.

Á Íslandi er bannað að auglýsa tóbak og nikótínvörur sem ekki hafa markaðsleyfi sem lyf. Hins vegar er farið fram hjá íslenskum lögum með því að auglýsa nikótínpúða með teiknimyndafígúru sem ekki er tengd ákveðinni vörutegund og virðist höfða einstaklega vel til ungs fólks.

Notkun á nikótínpúðum hefur aukist hröðum skrefum hér á landi undanfarin ár en dagleg notkun ungra karlmanna í aldurshópnum 18-34 ára mældist 32% á síðasta ári.

Mynd með frétt. Dagleg notkun á nikótínpúðum 2020-2023

Dr. Ruediger Krech, sviðstjóri heilsueflingar hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hvetur allar þjóðir til að vinna að stefnumótun í þessum málflokki sem verndar ungt fólk fyrir áhrifum frá tóbaksiðnaðinum.

Embætti landlæknis hefur bent á að nikótínpúðar eru ódýrar vörur og lítið skattlagðar. Ein áhrifaríkasta leiðin til að minnka notkun á tóbaki og tóbaksvörum er að hækka skatta og þar með verð vörunnar. Það að hækka skatta hefur ekki síst áhrif á notkun á þessum vörum hjá ungu fólki.

Frekari upplýsingar
Viðar Jensson, verkefnastjóri tóbaksvarna
hafsteinn.v.jensson@landlaeknir.is